Hörður Áskelsson leikur í Hallgrímskirkju um helgina og Dómkirkjunni í Dijon viku síðar

Fjölnir Ólafsson
Hörður Áskelsson, orgel og Fjölnir Ólafsson, barítón á hádegistónleikum fimmtudagsins
09/07/2015
Guðný Einarsdóttir
Guðný Einarsdóttir á hádegistónleikum fimmtudagsins
15/07/2015
Sýna allt

Hörður Áskelsson leikur í Hallgrímskirkju um helgina og Dómkirkjunni í Dijon viku síðar

Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson, organisti Hallgrímskirkju, leikur á tvennum tónleikum Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju um helgina. Hann hefur einnig þegið boð um að leika í sumartónleikaröð Dómkirkjunnar í Dijon í Frakklandi, La Cathédrale Saint- Benigne þann 19. júlí nk., þar sem hann leikur úr efnisskrám helgarinnar í Hallgrímskirkju. Orgelið í Dijon er sögufrægt og þykir eitt það markverðasta á frönsku landsbyggðinni, byggt af Riepp bræðrum í Ottobeuren í Schwaben í Þýskalandi 1740-1745, en endurgert að fullu 1987-1996. Það hefur 5 hljómborð og 73 raddir og er þekkt fyrir sérlega vel heppnaða blöndu af þýskri og franskri orgelhefð.

Með tónleikum helgarinnar fagnar Hörður einnig útkomu nýs geisladisks, sem hann lék inn á á síðasta ári, en þetta eru fyrstu orgeltónleikar Harðar eftir að diskurinn kom út. Á diskinum leikur Hörður nokkur uppáhalds verka sinna eftir J.S. Bach, Prelúdíu og fúgu í h-moll, Piéce d’Orgue, partítu og sálmforleiki, Svítu eftir Guilain og Grand Dialogue eftir Marchand. Skýringar hans með orgelverkunum eru mjög persónulegar og veita skemmtilega innsýn í hvernig Hörður heillaðist ungur af orgelinu.

Á efnisskrá laugardagsins eru heillandi og aðgengileg orgelverk sem ungir sem aldnir ættu að hafa ánægju af, m.a. umritun á Brúðkaupinu á Troldhaugen eftir Grieg og Burlesku og Maríuversi Páls Ísólfssonar, og Gotnesk svíta eftir Boëllman, sem býr yfir himneskum hægum kafla, sem margir þekkja vel undir heitinu Priere a Notre Dame eða Maríubæn. Á tónleikum sunnudagsins leikur hann aðra efnisskrá, þ.s. hann leikur m.a. Prelúdíu og fúgu í h-moll eftir J.S. Bach og Magnificat svítu eftir Guilain af nýja diskinum, Kóral í a-moll eftir Cesar Franck og tvo þætti úr Sinfonina Archandria sem norska tónskáldið Kjell- Mörk Karlsen tileinkaði Herði.

Miðaverð er 2000 kr á laugardagstónleikana, sem hefjast kl. 12 og 2500 kr á sunnudagstónleikana, sem hefjast kl. 17 og er miðasala við innganginn.

Frítt fyrir félaga í Listvinafélagi Hallgrímskirkju.