J.S. Bach: Jólaóratórían I-III | 29. og 30. desember

Choir concert in Hallgrimskirkja
Requiem – Sálumessa
03/11/2016
St. Cecilia
Tónleikar til heiðurs heilagri Cecilíu í Hallgrímskirkju laugardaginn 19. nóvember kl. 14. – Aðgangur ókeypis!
18/11/2016
Sýna allt

J.S. Bach: Jólaóratórían I-III | 29. og 30. desember

Schola Cantorum

Í TILEFNI AF 20 ÁRA AFMÆLI SCHOLA CANTORUM

JÓLAÓRATÓRÍAN I-III EFTIR J. S. BACH BWV 248
FIMMTUDAGINN 29. des kl. 20
FÖSTUDAGINN 30. des kl. 17

Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju
Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju, konsertmeistari: Tuomo Suni
Stjórnandi: Hörður Áskelsson

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran
Hildigunnur Einarsdóttir alt
Benedikt Kristjánsson tenór
Fjölnir Ólafsson bassi

Sannkallaðir hátíðartónleikar verða haldnir í Hallgrímskirkju 29. og 30. desember nk., en þá verður Jólaóratórían eftir J.S. Bach (1685–1750) flutt af Schola cantorum, Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrimskirkju og glæsilegum hópi íslenskra einsöngvara af yngri kynslóðinni. Stjórnandi er Hörður Áskelsson, kantor Hallgrímskirkju.

Tónleikarnir eru lokin á afmælisfögnuði Schola cantorum sem fagnar 20 ára afmæli í ár. Jólaóratórían er eitt af stórvirkjum barokktímans, samin fyrir jólahátíðina 1734. Jólaboðskapurinn er rakinn í gleðisöngvum, hugljúfum aríum og íhugulum sálmum þar sem fjallað er um það kraftaverk sem varð þegar frelsarinn fæddist fyrir rúmum 2000 árum.

Nánar um tónleikana og einsöngvara:

Um er að ræða flutning í svokölluðum upprunastíl, þar sem þess er gætt að nálgast tónlist liðinna alda út frá forsendum hennar sjálfrar, eðli og inntaki og í ljósi staðgóðrar þekkingar á túlkunarvenjum hvers tíma fyrir sig. Schola cantorum hefur einu sinni áður flutt Jólaóratóríu Bach ásamt hinni rómuðu Alþjóðlegu barokksveit í Den Haag, sem hefur margsinnis komið hingað til lands á undanförnum árum og flutt stórvirki barokktímans með kórum Hallgrímskirkju. Sveitin er skipuð tónlistarfólki sem hefur stundað nám við hina virtu barokkdeild Konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi, eina mikilvægustu miðstöð rannsókna og kennslu á sviði barokktónlistar í heiminum. Samvinna sveitarinnar og Harðar Áskelssonar hefur vakið verðskuldaða athygli enda um að ræða brautryðjendastarf hérlendis í tónlistarflutningi í upprunastíl. Alþjóðlega barokksveitin kennir sig nú við Hallgrímskirkju, þar sem sá hópur sem kemur saman hér að spila er nú dreifður um allan heim og kemur aðeins saman sem slíkur í Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar.

Benedikt Kristjánsson tenór er fæddur á Húsavík 1987.  16 ára gamall hóf hann söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Sibylle Köll og síðar Margréti Bóasdóttur. Samhliða námi söng hann í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðakórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Að loknu framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, þ.s. Margrét Bóasdóttir og Krystyna Cortes voru kennarar hans, hlaut Benedikt inngöngu Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín haustið 2008. Þar var aðalkennari hans Prof. Scot Weir og lauk Benedikt námi í júlí 2015 með fyrstu ágætiseinkunn. Hann hefur einnig sótt meistaranámskeið hjá Peter Schreier, Christa Ludwig, Elly Ameling, Robert Holl, Andreas Schmidt, Thomas Quasthoff og Helmuth Deutsch.
Benedikt hlaut 1. verðlaun í alþjóðlegri Bach söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Hann hlaut einnig áheyrendaverðlaunin í Alþjóðlegu Bach keppninni í Leipzig sumarið 2012 og var valinn „Bjartasta vonin“ í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár.

Benedikt var valinn „Söngvari ársins“ í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Benedikt hefur margoft komið fram með Alþjóðlegu barokksveitinni og kórum Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar og söng m.a. sitt fyrsta hlutverk sem guðspjallamaður og tenóreinsöngvari í Jóhannesarpassíunni eftir J.S. Bach í Hallgrímskirkju og Hofi á Akureyri með þeim vorið 2011 auk þess sem hann söng sömu hlutverk í Jólaóratóríunni I-VI með Mótettukór Hallgrímskirkju á 30 ára afmæli kórsins í Hörpu 2012. Hann söng einnig tenórhlutverkið í óratóríunni Salómon eftir Händel á Kirkjulistahátíð 2015, en sá flutningur hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2016.

Benedikt hefur komið fram sem guðspjallamaður í passíum J.S Bach og öðrum óratoríum víðsvegar um Evrópu og sungið með hljómsveitum eins og Deutsche Kammerphilharmonie Bremen, Staatskapelle Berlin og Dresdner Barockorchester og Gaechinger Cantorey. Hann hefur unnið með mörgum virtum stjórnendum eins og Reinhard Goebel, Reinbert de Leeuw, Vaclav Luks og Hans-Christoph Rademann.

Meðal verkefna Benedikts árið  2017 má nefna tónleikaferðalag um Bandaríkin með Gaechinger Cantorey (Hans-Christoph Rademann), þar sem hann mun m.a. syngja hlutverk guðspjallamannsins í Jóhannesarpassíu Bachs á tónleikum í Walt Disney Hall í Los Angeles. Einnig syngur hann hlutverk Acis í óperunni “Acis and Galathea” eftir Händel á Händelfestspiele í Halle með Collegium Marianum (Jana Semeradova).

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran fæddist í Reykjavík 1984. Hún lauk burtfararprófi og kennaragráðu (ABRSMdip) frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Signýju Sæmundsdóttur og framhaldsgráðu í sviðslistum og óperusöng frá Royal Conservatoire of Scotland hjá Patricia Hay. Thelma hefur einnig sótt mörg námskeið m.a. Kiri Te Kanawa, Malcolm Martineau, Robin Stableton og Thomas Allan. Thelma starfar við fjölbreytt leik- og söngverkefni, Hún hefur komið fram á fjöldamörgum tónleikum hér heima og erlendis og söng m.a. hjá Royal Scottish Opera í fjölda verkefna á meðan námi hennar stóð. Á meðal hlutverka sem Thelma hefur sungið má nefna Sheilu Franklin (Hárið) Papagena (Töfraflautan), Óli Lokbrá (Hans og Gréta), Súsanna (Brúðkaups Fígarós) og Gréta (Hans og Gréta). Á meðal kirkulegra einsöngshlutverka má nefna Requiem (John Rutter), Te Deum (Charpentier), Requiem (Sigurður Sævarsson) og ýmsar kantötur eftir Bach.

Thelma steig sín fyrstu skref á Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu árið 2014. Þar tók hún að sér hlutverk í söngleiknum Spamalot eftir Monty Python og í leikriti Arthurs Millers Eldrauninni (The Crucible) í hlutverki Mercy Lewis. Á þessu ári lék Thelma titilhlutverk Pílu Pínu í samnefndum söngleik hjá Menningarfélagi Akureyrar. Allar þessar sýningar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Thelma kemur fram sem einsöngvari og syngur töluvert við kirkjulegar athafnir en þar að auki syngur hún með kammerkórnum Schola Cantorum og er kórstjóri Krúttakórs Langholtskirkju.

Hildigunnur Einarsdóttir alt hóf snemma tónlistarnám og söng öll sín æskuár í barnakór hjá Margréti Pálmadóttur og síðar í Hamrahlíðarkórunum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Hildigunnur lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni.

Þá hefur Hildigunnur jafnframt sótt fjölda masterklassa m.a. hjá David Jones og Elisabet Meyer-Topsöe, Margreet Honig og Marcel Boone. Hildigunnur er mjög virk í kórastarfi og hefur verið meðlimur í Schola Cantorum frá 2008 en er einnig félagi í Barbörukórnum og kór Íslensku óperunnar, en stjórnar sjálf m.a. Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttir. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari með kórum og hljóðfæraleikurum og af nýlegum verkefnum má nefna tónleika með Barokksveitinni Brák, einsöng í Messías eftir Handel og Petit Messe Solenelle eftir Rossini með alþjóðlegu kórakademíunni í Lubeck undir stjórn Rolf Beck. Hildigunnur stundar auk þess nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands, en þar sækir hún söngtíma til Hlínar Pétursdóttur Behrens og Selmu Guðmundsdóttur. Hildigunnur var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus.

Fjölnir Ólafsson baritón hóf 10 ára gamall nám í klassískum gítarleik en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014.

Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika í Þýskalandi og á Íslandi. Þar má nefna Ein Deutsches Requiem e. Brahms, hlutverk Jesú í Matteusarpassíu Bachs, frumflutning á ljóðaflokki  fyrir baritón og kammersveit eftir Tzvi Avni sem og fjölda ljóða- og einsöngstónleika.
Við Saarländische Staatstheater hefur Fjölnir farið með fjölda minni hlutverka, m.a. í ,,Tosca”, ,,Macbeth”, sem og aðalhlutverk í nýrri barnaóperu eftir Gordon Kampe, ,,Kannst du pfeifen, Johanna”.

Fjölnir hefur unnið til verðlauna í ,,International Richard Bellon Wettbewerb 2011”, ,,International Joseph Suder Wettbewerb 2012” og ,,Walter und Charlotte Hamel Stiftung 2013”.  Fjölnir hlaut verðlaun sem Bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum 2013 og er styrktarhafi Tónlistarsjóðs Rótarý.
Fjölnir hefur verið fastur meðlimur Schola cantorum frá því hann flutti til Íslands 2015.

listvinafelag-jol-2016