Lettnesk orgeldíva og 24 ára bandarískur orgelsnillingur meðal flytjenda.
Star Wars, Jón Leifs og nýtt orgelverk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur er meðal þess sem prýðir efnisskrá Alþjóðlega orgelsumarsins í Hallgrímskirkju þetta árið. Einnig verður fjöldi sígildra perlna leikinn á hið ómfagra Klais-orgel kirkjunnar, sem er stærsta hljóðfæri landsins og laðar að sér færustu orgelleikara heimsins.
Haldnir verða tónleikar í hádeginu alla laugardaga og klukkan fimm alla sunnudaga fram til 9. ágúst. Þá verða einnig hádegistónleikar á fimmtudögum á tímabilinu í samvinnu við Félag íslenskra organleikara, en það er á einum þeirra, þann 2. júlí, sem Jónas Þórir, organisti Bústaðakirkju, mun leika kvikmyndatónlist.
Stórstjörnurnar í ár eru að öðrum ólöstuðum þau Iveta Apkalna, heimsþekkt orgeldíva frá Lettlandi sem heldur tónleika helgina 20.-21. júní og Dexter Kennedy, Bandaríkjamaður sem aðeins 24 ára að aldri vann Alþjóðlegu orgelkeppnina í Chartres 2014, en hann leikur helgina 18. og 19. júlí.
Þá eru enn ónefndir hádegistónleikar kammerkórsins Schola Cantorum, sem eru eins og undanfarin ár á miðvikudögum í sumar. Schola Cantorum hefur getið sér orð fyrir vandaðan kórsöng og flytur íslenskar og erlendar kórperlur ásamt þjóðlögum í þessari tónleikaröð.
Fyrstu tónleikar sumarsins verða helgina 13.-14. júní en þá leikur Björn Steinar Sólbergsson orgeldagskrá með frönsku yfirbragði.
Listvinum er boðið á alla orgeltónleika sumarsins á Alþjóðlegu orgelsumri og vonum við að þeir sem og aðllir aðrir njóti vel þessarar fjölbreyttu orgeltónlistarveislu.