Það var mikil hátíðarstemmning í glæsilega skreyttum Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 29. desember sl. þegar Listvinafélagið í Reykjavík hélt lokatónleika sína fyrir sneisafullum sal áhorfenda og að viðstöddum forseta Íslands, frú Höllu Tómasdóttur.
Mótettukórinn, Schola Cantorum, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og einsöngvararnir Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Alex Potter kontratenór og Jóhann Kristinsson bassi fluttu Jólaóratóríuna BWV 248 eftir Johann Sebastian Bach undir stjórn Benedikts Kristjánssonar sem var einnig tenóreinsöngvari og túlkaði hlutverk guðspjallamannsins.
Tónleikarnir voru síðasti listviðburðurinn sem Listvinafélagið í Reykjavík, áður Listvinafélag Hallgrímskirkju, heldur á 42 ára glæstum starfsferli sem hefur löngu öðlast heiðurssess í menningarsögu þjóðarinnar. Skemmst er frá því að segja að tónleikarnir heppnuðust einstaklega vel og verða lengi í minnum hafðir. Vel fór á því að Jólaóratóría Bachs, þetta frægasta tónverk jólanna, skyldi hljóma á þessum tónleikum þar sem tónlist Bachs hefur verið leiðarstef í starfsemi Listvinafélagsins allt frá upphafi og Jólaóratórían var einmitt flutt á fyrstu tónleikum Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Hallgrímskirkju árið 2004, en hinir frábæru hljóðfæraleikarar sveitarinnar hafa komið reglulega til landsins síðustu 20 ár og flutt stórverk barokktónbókmenntanna ásamt Mótettukórnum og Schola Cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar.
Á dögunum birtist fimm stjörnu ritdómur um tónleikana eftir tónlistargagnrýnandann Magnús Lyngdal Magnússon í Morgunblaðinu. Eftir að hafa hrósað flytjendum á tónleikunum og lýst flutningnum sem „fyrsta flokks og gildir þá einu hvert var litið“, segir Magnús:
„Listvinafélagið og kórarnir tveir hafa glatt landsmenn (og raunar miklu fleiri) um áratugaskeið. Efnisskrá þeirra í gegnum tíðina hefur ekki einungis verið metnaðarfull, heldur líka glæsilega saman sett og það verður sjónarsviptir að tónleikahaldi Listvinafélagsins.
Þar hafa margir lagt hönd á plóg en að öðrum ólöstuðum hefur hugsjónastarf hjónanna Ingu Rósar Ingólfsdóttur og Harðar Áskelssonar ekki riðið við einteyming. Það var því býsna tilfinningarík stund þegar þau stigu á svið Eldborgar að flutningi loknum við standandi lófatak. Er það vel og ber að þakka óeigingjarnt framlag þeirra til íslensks tónleikalífs um áratuga skeið.“
Ljósmyndari: Kristín Bogadóttir