Á fjölmennum aðalfundi 38. starfsárs Listvinafélags Hallgrímskirkju, sem haldinn var í Kolabrautinni í Tónlistarhúsi Hörpu miðvikudaginn 26. maí, var tillaga stjórnar félagsins um ný lög samþykkt.
Stærsta breytingin er sú að framvegis heitir félagið Listvinafélagið í Reykjavík og eftir 39 ára starf hættir félagið að starfa undir merkjum Hallgrímskirkju.
Ástæða þess að félagið kennir sig nú ekki lengur við Hallgrímskirkju er sú að sóknarnefnd Hallgrímskirkju ákvað einróma á sóknarnefndarfundi sínum 16. júní 2020 að segja upp samstarfssamningi við Listvinafélagið og var það tilkynnt stjórn félagsins með bréfi 3. júlí 2020 og ekki tókst að ná samkomulagi um veru Listvinafélagsins né starfsemi þess í kirkjunni lengur.
Listvinafélagið, sem stofnað var haustið 1982, hefur staðið fyrir mjög öflugu menningarstarfi í Hallgrímskirkju og m.a. skipulagt fjölmargar hátíðir, þar á meðal 15 Kirkjulistahátíðir frá 1987- 2019, 16 árlegar Jólatónlistarhátíðir frá 2004- 2019, 27 árleg Alþjóðleg orgelsumur 1993- 2020 með 40 tónleikum hvert sumar undanfarin sumur ( nema 2020) auk þess að skipuleggja hátíðir tengdar 5 alda afmæli Lúthers 2017 og 400 ára ártíð Hallgríms Péturssonar 2014 í samvinnu við Hallgrímssöfnuð.
Að auki sá Listvinafélagið um að skipuleggja 4 myndlistarsýningar á ári í forkirkju Hallgrímskirkju og heildarlestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar á föstudaginn langa um áratuga skeið ásamt Sálmafossi á Menningarnótt til fjölda ára, nýsköpun í listum ásamt fleiru.
Hörður Áskelsson hefur verið listrænn stjórnandi félagsins frá upphafi.
Listvinafélagið mun áfram standa fyrir metnaðarfullum listviðburðum í nánu samstarfi við kórana Mótettukórinn og Schola Cantorum, eins og verið hefur, en stjórnandi kóranna, Hörður Áskelsson, lét af störfum við Hallgrímskirkju þann 1. júní sl. og verður sjálfstætt starfandi kórstjóri. Félagið mun standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og finna húsnæði sem hentar hverjum viðburði best.
Á aðalfundinum í Hörpu var Erla Elín Hansdóttir kennari kjörin heiðursfélagi Listvinafélagsins fyrir mikilvægt og fórnfúst starf sitt fyrir félagið um áratuga skeið. Hún helgaði til fjölda ára frítíma sínum í verkefni tengd listalífi Hallgrímskirkju, söng í Mótettukórnum og var tónleikastjóri Sumarkvölds við orgelið – síðar Alþjóðlegs orgelsumars um margra ára skeið. Auk þess sá hún um gerð efnisskráa fyrir Listvinafélagið eins lengi og heilsa hennar leyfði. Erla Elín bætist í glæsilegan hóp heiðursfélaga Listvinafélagsins með frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta og Þóru Kristjánsdóttur listfræðingi, fyrrverandi formanni Listvinafélags Hallgrímskirkju.
Úr stjórn Listvinafélagsins gengu að þessu sinni Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir rithöfundur og sagnfræðingur og Sigurður Sævarsson tónskáld sem var formaður félagsins um margra ára skeið og voru þeim þökkuð vönduð og mikilvæg störf þeirra fyrir félagið.
Nýja stjórn Listvinafélagsins skipa Hörður Áskelsson listrænn stjórnandi, Rósa Gísladóttir formaður, Alexandra Kjeld, Auður Perla Svansdóttir fulltrúi Mótettukórsins og Helgi Steinar Helgason fulltrúi Schola cantorum. Varamenn eru Ágúst Ingi Ágústsson, Halldór Hauksson, Benedikt Ingólfsson, varamaður Schola cantorum og Halla Björgvinsdóttir, varamaður fyrir Mótettukórinn.
Framkvæmdastjóri félagsins er Inga Rós Ingólfsdóttir.
Listvinafélagið heldur sömu kennitölu og áður og fær nýtt netfang: [email protected].
Heimasíðan verður sú sama listvinafelag.is.