Mótettukór Hallgrímskirkju heldur tónleika í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju nk. sunnudag 10. mars 2019 kl.17 undir yfirskriftinni
Rómantísk kór- og orgeltónlist.
Þar flytur kórinn sérlega fallega efnisskrá með kórtónlist eftir Bruckner, Mendelssohn og Brahms ásamt Ástu Marý Stefánsdóttur sópransöngkonu og Birni Steinari Sólbergssyni orgelleikara. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.
Rómantíska tímabilið sem hófst skömmu eftir 1800 og lauk um aldamótin 1900 gat af sér ótrúlega falleg og innlifuð tónverk sem hafa staðist tímans tönn.
Á tónleikunum verða flutt nokkur tónverk frá þessu tímabili, bæði verk án undirleiks og í samleik með Klais orgelinu.
Má þar nefna mótetturnar Richte mich Gott og Herr nun lässest Du eftir Mendelssohns, ásamt tveimur mótettum eftir Brahms- „Warum ist das Licht gegeben“ og „Geistliches Lied“, sem verður flutt með Klaisorgelinu.
Kórinn flytur einnig tvær af þekktustu mótettum Bruchners, Locus iste og Christus factus est.
Ásta Marý Stefánsdóttir sópran syngur einsöng í Hör mein Bitten ( Hear my prayer) eftir Mendelssohn ásamt kórnum og orgelinu. Einnig leikur Björn Steinar Sólbergsson orgelsónötu nr. 6 eftir Mendelssohn, sem er tilbrigði um sálmalagið Faðir vor, sem á himnum ert.
Þessi efnisskrá er sérlega metnaðarfull og full af fegurð og tilfinningum og gefst hér upplagt tækifæri fyrir unnendur fagurrar kórtónlistar að njóta stórkostlegrar tónlistar undir hvelfingum Hallgrímskirkju.
Mótettukór Hallgrímskirkju hefur um áratuga skeið verið meðal fremstu kóra Íslands. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur og hefur kórinn farið í margar tónleikaferðir og sungið í helstu dómkirkjum Evrópu, auk þess sem hann hefur tekið þátt í tónlistarhátíðum og unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum.
Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson, kantor Hallgrímskirkju. Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju auk þess að vera skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar og hafa þeir báðir hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.
Ásta Marý Stefánsdóttir er kórfélagi í Mótettukórnum en hún vann fyrstu verðlaun í söngkeppninni Vox Domini 2018.
Almennt miðaverð er 3.900 kr og er miðasala í Hallgrímskirkju og á midi.is, en boðið er upp á afslátt til nemenda, eldri borgara og öryrkja og er miðaverð til þeirra 2500 kr.
Miðaverð til listvina er 2000 kr.