VIVALDI ÁRSTÍÐIRNAR Á KLAISINN og PICCOLOTROMPETAR Í HÁTÍÐARSKAPI á KIRKJULISTAHÁTIÐ miðvikudaginn 5. júní kl. 20

Alþjóðlegt orgelsumar 2017
Undurfalleg trúartónlist á tónleikum laugardaginn 27. apríl kl. 14 í samstarfi við LHÍ
26/04/2019
Björn Steinar Sólbergsson
Upphafstónleikar Alþjóðlegs orgelsumars helgina 22. – 23. júní 2019
20/06/2019
Sýna allt

VIVALDI ÁRSTÍÐIRNAR Á KLAISINN og PICCOLOTROMPETAR Í HÁTÍÐARSKAPI á KIRKJULISTAHÁTIÐ miðvikudaginn 5. júní kl. 20

David Cassan

David Cassan

Tveir framúrskarandi íslenskir trompetleikarar og margverðlaunaður franskur orgelleikari koma fram á Kirkjulistahátíð miðvikudaginn 5. júní kl. 20.

Segja má að Jóhann Nardeau og Baldvin Oddsson hafi slegið í gegn á Hátíðarhljómum um síðustu áramót í Hallgrímskirkju og nú koma þeir aftur til Íslands og leika með David Cassan sem vann m.a. fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu orgelkeppninni í Chartre í Frakklandi 2017.

Þeir félagar leika mörg fegurstu verk tónbókmenntanna eftir Charpentier o.fl. og Cassan leikur hina gullfallegu tríósónötu nr. 1 eftir J.S. Bach, úr Pieces for a musical clock eftir Georg Friedrich Händel og Árstíðirnar eftir Vivaldi í umskrift fyrir orgel ásamt því að spinna í barokkstíl!

Fullt verð er 4.900 kr. og er afsláttur til öryrkja, eldri borgara og nemenda, en listvinir fá 50% afslátt.

Miðasala er í kirkjunni og við innganginn og einnig á midi.is.

EFNISSKRÁ:

Marc-Antoine Charpentier (1643–1704):

Forspil úr Te Deum 

Antonio Vivaldi (1678–1741) 

Veturinn úr Árstíðunum* Allegro non molto Largo Allegro Antonio 

Vivaldi: Konsert fyrir tvo trompeta í C-dúr, RV 537 Allegro Largo Allegro 

Johann Sebastian Bach (1685–1750): 

Tríósónata nr.1 í Es-dúr, BWV 525* [Allegro] Adagio Allegro 

Petronio Franceschini (1651–1680):

Sónata fyrir tvo trompeta í D-dúr Grave Allegro Adagio Allegro 

David Cassan (f. 1989) Tokkata af fingrum fram í barokkstíl* 

Francesco Manfredini (1684–1762):

Konsert fyrir tvo trompeta í D-dúr Allegro Largo Allegro 

Georg Friedrich Händel (1685–1759) Úr Pieces for a Musical Clock* 

Georg Friedrich Händel Innreið drottningarinnar af Saba úr Salómon 

*Einleikur á orgel 

Um hátíðarhljómana

Tígulegra upphaf en að Te Deum eftir Marc-Antoine Charpentier er vart til. Hernaðarblærinn í því hristir menn og skekur og manar til átaka, enda samdi Charpentier verk sitt að líkindum til að fagna hernaðarsigri Frakka yfir Vilhjálmi af Óraníu árið 1692 í enn einni skærunni milli evrópskra stórvelda. Það er gaman að Samband evrópskra útvarpsstöðva, EBU, skuli hafa þetta að einkennisstefi sínu og útvarpa hvert ár á undan Eurovision-söngvakeppninni.

Mörg hundruð milljónir manna tengja þetta stef því við gleði, glys og glaum og friðsamlega samvinnu Evrópumanna. Það er ævinlega hollt að minnast þess að vetur er í nánd og því ekki verra að heyra vetrarstef úr Árstíðum Vivaldis í sumarbyrjun á Íslandi. Þetta er umritun fyrir orgel á einum af hinum frægu fiðlukonsertum rauða prestsins frá Feneyjum. Vivaldi lét sonnettur fylgja hverri árstíð, og í upphafi þeirra sem fylgdu vetrinum segir: „Við skjálfum af kulda á jökulkaldri ísbreiðu, og þolum nístandi vind.“ Annar þátturinn er hugljúfari, því að hann á að lýsa setu við arineld á vetrarkvöldi.

Lokaþátturinn dregur upp mynd af fólki sem þokast hægt eftir ísilögðu vatni og óttast að svellið bresti. Tveggja trompeta konsert Vivaldis sem siglir í kjölfarið er ákaflega hressandi tónsmíð þar sem trompetarnir kallast á og reyna með sér í hlaupum upp og niður, herma hvor eftir öðrum og virðast spyrja hvor annan í sífellu: Getur þú þetta líka? Tríósónata Bachs sem við heyrum næst hefst á kankvísan hátt, eins og verið sé að segja dálítið hátíðlega gamansögu sem endi vel. Annar þáttur er hægur, íhugull og lítið eitt litaður af angurværri sorg. Síðasti þáttur er hraður og gæti minnt okkur á glaðlegan fuglasöng á vordegi.

Petronio Franceschini er nafn sem sést ekki oft í efnisskrám tónleika. Hann var mikilvirkt tónskáld, var í þjónustu kirkjunnar sem sellóleikari í hljómsveitum og sem tónskáld, og samdi fjórar eða fimm heilar óperur (heimildum ber ekki saman). Hann var í miðjum klíðum að semja óperu um gríska guðinn og ærslabelginn Díónýsos þegar hann dó úr lungnabólgu 29 ára gamall. Trompetkonsert Franceschinis er hið eina sem enn er leikið eftir hann. Að loknum konserti Franceschinis mun organistinn á tónleikunum, David Cassan, snarstefja eins og eina tokkötu í barokkstíl, enda hefur Cassan sérstakt dálæti á orgelspuna. Francesco Manfredini, fæddur í Toskana á Ítalíu og samtímamaður Bachs og Händels, er líka sjaldséður nú á dögum, en hann samdi skemmtilegan konsert fyrir tvo trompeta sem heldur nafni hans á lofti og við heyrum hér í dag.

Um miðbik 18. aldar varð það mjög vinsælt stöðutákn meðal aðalsmanna og auðkýfinga í Evrópu að eiga klukkur sem gátu spilað tónlist. Þessi tæki voru einhvers staðar á milli spiladósar og lírukassa, í raun réttri smáorgel skrúfað saman við úrverkið. Viðskiptamaðurinn Händel lét ekki segja sér það tvisvar að semja smáverk fyrir tónlistarklukku í ljósi þessa nýjasta æðis. Við heyrum nokkur klukkustef eftir hann á tónleikunum, enda eru þau samin fyrir smáorgel og til þess að gera auðvelt að spila þau á orgel. Tónleikunum lýkur á hinni hátíðlegu innreið drottningarinnar af Saba úr óratóríu Händels, stefi sem er leikið fyrir henni þegar hún rennir í hlað í Jerúsalem hjá Salómoni konungi og þau taka að mæra hvort annað án afláts.

Til er forn söfnuður gyðinga í Eþíópíu sem telur sig afkomanda sonar Salómons og Saba-drottningar. Engar sönnur hafa þó verið færðar á samdrátt þeirra, jafnvel þótt þeim hafi orðið vel til vina og inngöngumars hennar hafi verið jafnglæsilegur og Händel ber vitni.( Atli Freyr Steinþórsson)

Jóhann Nardeau

Jóhann Nardeau

Jóhann Nardeau

Jóhann Nardeau lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2006. Síðan þá hefur hann verið við nám og störf í París.

Hann hlaut gullverðlaun á prófi í Conservatoire Nationale de Région de Rueil-Malmaison þar sem Eric Aubier var aðalkennari hans.

Vorið 2013 lauk hann meistaraprófi frá Conservatoire National Supérieur de Musique et de Danse de Paris með hæstu einkunn.

Meistaraverkefni Jóhanns fólst í því að hljóðrita geislaplötuna Söng Bóreasar með fjórum verkum eftir norræn samtímatónskáld. Jóhann vann til verðlauna í alþjóðlegum trompetkeppnum í Búdapest árið 2009 og í Moskvu árið 2011.

Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2013 sem bjartasta vonin. Á Íslandi hefur Jóhann komið oftsinnis fram sem einleikari og flutt flest einleiksverk sem samin hafa verið fyrir trompet. Jóhann lék á Hátíðarhljómum við áramót í Hallgrímskirkju með Baldvini Oddssyni í lok árs 2018. Jóhann Nardeau hefur starfað sem lausamaður í mörgum virtum hljómsveitum í París.

Má þar nefna hljómsveit Parísaróperunnar, Fílharmóníuhljómsveit franska útvarpsins, Orchestre de Paris og Ensemble Intercontemporain. Jóhann gegndi um skeið stöðu fyrsta trompetleikara í Orchestre des Lauréats du Conservatoire. Undanfarin misseri hefur Jóhann starfað sem trompetkennari í Sèvres í næsta nágrenni við París.

Baldvin Oddsson

Baldvin Oddsson

Baldvin Oddsson

Baldvin Oddsson hóf trompetnám við Tónskóla Sigursveins fimm ára gamall og lauk þaðan framhalds-og burtfararprófi með tónleikum í Seltjarnarneskirkju tíu árum síðar. Baldvin hefur síðan verið við tónlistarnám í Bandaríkjunum, fyrst við Interlochen Arts Academy í Michigan, þá við San Francisco Conservatory of Music og loks veturlangt hjá trompeteinleikaranum Stephen Burns í Chicago. Baldvin lauk námi frá Manhattan School of Music árið 2016. Í Michigan fór hann með sigur af hólmi í einleikarakeppni skólans og lék í kjölfarið einleik með skólahljómsveitinni.

Baldvin sigraði einnig í keppni ungra einleikara með Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék einleik með hljómsveitinni, auk þess sem hann lék margoft með trompetdeild hljómsveitarinnar. Baldvin kom fram á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju árið 2013 ásamt kennara sínum, trompetvirtúósinum Stephen Burns. Þá lék hann á Hátíðarhljómum við áramót í Hallgrímskirkju í lok árs 2017 og 2018 og kom fram á Alþjóðlegu orgelsumri í kirkjunni árið 2018.

David Cassan

David Cassan

David Cassan

Franski orgelleikarinn David Cassan er einn helsti orgelleikari yngri kynslóðarinnar í Evrópu. Hann nam við tónlistarháskóla í Caen og Lyon, en meðal kennara hans voru Thierry Escaich og Philippe Lefebvre. Cassan er eftirsóttur konsertorganisti og hefur komið fram með flestum helstu hljómsveitum Frakklands og haldið tónleika í fjölmörgum löndum. Hann leggur sig helst eftir verkum eftir Johann Sebastian Bach og eftir frönsk tónskáld frá 19. og 20. öld.

Cassan hefur sérstakt dálæti á orgelspuna og leikur reglulega undir þöglum kvikmyndum á orgel eða píanó. Hann hefur hlotið mörg verðlaun í orgelkeppnum, til að mynda í Chartres í Frakklandi, St Albans á Englandi og í Haarlem í Hollandi.

Í kjölfar sigra sinna hefur hann verið beðinn um að sitja í dómnefndum í slíkum keppnum. Cassan heldur meistaranámskeið fyrir orgelnemendur víða um lönd og kennir orgelleik og orgelspuna við tónlistarháskóla í Nancy og Saint-Maur-des-Fossés í Frakklandi.

David Cassan er aðalorganisti (titulaire du Grand-Orgue) við Oratoire du Louvre-kirkjuna í París.