Verið velkomin á Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju 2017

Dina Ikhina og Denis Makhankov
Rússneskt orgeldúó leikur fjórhent og fjórfætt á Alþjóðlegu orgelsumri um helgina
13/07/2017
David Cassan
David Cassan á Alþjóðlegu orgelsumri
21/07/2017
Sýna allt

Verið velkomin á Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju 2017

Schola Cantorum

Í 25.sinn verður sumarið í Hallgrímskirkju fyllt af orgelómum. Í allt sumar verða haldnir fernir tónleikar í hverri viku, þrennir orgeltónleikar og einir kórtónleikar á þessari vinsælu sumartónleikaröð.

19. JÚLÍ 2017 KL. 12.00
SCHOLA CANTORUM
HALLGRÍMSKIRKJA

Kammerkórinn Schola cantorum heldur vikulega miðvikudagstónleika á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju og flytur fagrar, íslenskar kórperlur. Íslenskum og erlendum gestum er síðan boðið upp á kaffi, mola og spjall eftir tónleikana í safnaðarheimili Hallgrímskirkju. Miðaverð 2500 kr.

Hádegistónleikarnir alla miðvikudaga í  sumar og hefjast kl. 12:00.
Miðaverð: 2.500 kr.
Miðar fást klst fyrir tónleika og á midi.is

Kammerkórinn Schola cantorum hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn “Tónlistarflytjandi ársins 2016” á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars sl. og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju (áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn hélt veglega upp á 20 ára afmæli sitt á sl. ári með fjölbreyttum tónleikum, þ.s. kórinn frumflutti m.a. Requiem eftir Sigurð Sævarsson og flutti Jólaóratóríu J.S. Bach með Alþjóðlegu barokksveitinni í des. sl., og kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl sl., þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl.  Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson. Á tónleikum sumarsins flytur Schola cantorum m.a. þekktar íslenskar kórperlur í bland við verk af nýjasta geisladiskinum, MEDITATIO, sem kom út hjá hinu virta sænska útgáfufyrirtæki BIS á síðasta ári og hefur hlotið afburða dóma í fagtímaritum um allan heim.


20. JÚLÍ 2017 KL. 12.00
EXULTAVIT Í HALLGRÍMSKIRKJU
EINAR JÓHANNSSON, KLARINETT
DOUGLAS A BROTICHE, ORGEL
TÓNLIST EFTIR : J.S. BACH, JÓNAS TÓMASSON, OTTO OLSSON, G. TARTINI

Einar Jóhannesson og Douglas A. Brotchie

Einar Jóhannesson og Douglas A. Brotchie

Fimmtudaginn 20. júlí flytja Einar Jóhannesson klarinettleikari og Douglas A Brotchie orgelleikari spennandi og fjölbreytta tónlist eftir J.S. Bach, Jónas Tómasson, Otto Olsson og G. Tartini. Það er einstök upplifun að heyra klarinet og stórfenglega orgelið leika saman í yndislegum hljómburði Hallgrímskirkju. Miðaverð 200kr og fást klst fyrir tónleika og á midi.is

Einar Jóhannesson fæddist í Reykjavík og nam klarínettleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Gunnari Egilson og í The Royal College of Music í London þar sem kennarar hans voru Bernard Walton og John McCaw. Þar vann hann til hinna virtu Frederick Thurston verðlauna. Árið 1976 vann Einar samkeppni um þátttöku í “Live Music Now“ sem Sir Yehudi Menuhin stofnaði og hlaut síðar Sonning verðlaunin fyrir unga norræna einleikara. Einar er einn þeirra klarínettleikara sem fjallað er um í bók breska tónlistarfræðingsins Pamelu Weston Clarinet Virtuosi of Today. Hann er tíður gestur á tónlistarhátíðum víða um heim og hefur leikið fyrir útvarps- og sjónvarpsstöðvar margra landa. Einar hefur frumflutt fjölda verka sem eru sérstaklega skrifuð fyrir hann, jafnt einleikskonserta, kammerverk og verk fyrir einleiksklarínett. Einar var 1. klarínettleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1980‒2012. Hann er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur sem hefur getið sér gott orð á alþjóðlegum vettvangi. Einar er einnig félagi í miðaldasönghópnum Voces Thules.

Douglas A. Brotchie er fæddur í Edinborg í Skotlandi en er orðinn íslenskur ríkisborgari eftir meira en þrjátíu ára dvöl hér á landi.
Hann byrjaði að læra á orgel um fermingaraldur og strax við sextán ára aldur var hann ráðinn organisti og kórstjóri við Balerno sóknarkirkjuna í útjaðri Edinborgar.
Douglas var annar organisti Dómkirkju Krists Konungs (Landakotskirkju) í mörg ár, organisti Hallgrímskirkju í eitt ár í leyfi Harðar Áskelssonar og organisti Háteigskirkju frá 1999 til 2011. Hann hefur haldið tónleika víða um Evrópu bæði sem einleikari og meðleikari, þ.á m. í Skotlandi, Ungverjalandi og Þýskalandi. Hann hefur oft komið fram sem organisti í sjónvarpi og útvarpi hérlendis og hefur leikið inn á fjölda geisladiska.