Listvinafélagið í Reykjavík 42. starfsár – UMBRA – Sígildir sunnudagar
Á þessum tíu ára afmælistónleikum UMBRU, í samstarfi við Listvinafélagið í Reykjavík, er áheyrendum boðið upp á veislutónlist miðalda og íslenskan þjóðlagaarf í fjölbreyttum útsetningum. Tónleikagestir verða leiddir í gegnum ferðalag þar sem mætast pílagrímar og farandsveinar, drykkju- og maríusöngvar, kóngafólk og heimasætur. Ennfremur verður flutt glæný tónlist sem hljómsveitin vinnur nú að út frá fornum erindum Völuspár.
Sérstakir gestir á þessum tónleikum eru góðvinir UMBRU og framúrskarandi íslenskir tónlistarmenn sem hafa starfað með hljómsveitinni síðastliðin ár og m.a. spilað á plötum hljómsveitarinnar: Úr myrkrinu, Llibre vermell og Bjargrúnum.
Tónlistarhópinn UMBRA skipa:
Alexandra Kjeld kontrabassi, lyklaharpa, söngur
Arngerður María Árnadóttir keltnesk harpa, indverskt harmóníum, söngur
Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir fiðla, langspil, söngur
Lilja Dögg Gunnarsdóttir söngur, slagverk, flautur
Sérstakir gestir
Þórdís Gerður Jónsdóttir selló, söngur
Matthias M.D. Hemstock slagverk
Kristofer Rodriguez slagverk
Eggert Pálsson slagverk, flautur
CANTORES ISLANDIAE sönghópur
Ágúst Ingi Ágústsson leiðari
Atli Freyr Steinþórsson
Gunnar Haraldsson
Jonas Koesling
Pétur Nói Stefánsson
Þorgrímur Þorsteinsson
Þórarinn Arnar Ólafsson
Tónlistarhópurinn UMBRA hefur starfað frá árinu 2014 og hefur fyrst og fremst einbeitt sér að miðaldatónlist og íslenskum þjóðlögum. Umbra hefur sent frá sér fjórar plötur hjá Dimmu útgáfu og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2018 fyrir jólaplötuna „Sólhvörf“. Nýjasta platan „Bjargrúnir“ frá 2022, sem beinir kastljósinu að íslenskum þjóðlagaarfi, var gefin út í 10 löndum Evrópu á vegum Nordic Notes útgáfunnar.
Á síðustu árum hefur hópurinn spilað erlendis í síauknum mæli þar sem áhugaverð og frumleg nálgun hópsins í lagasmíðum og útsetningum hefur vakið athygli. Framundan eru tónleikaferðir til Kína, Frakklands, Indlands og Þýskalands. Hópurinn hlýtur Listamannalaun á seinni hluta árs 2024.
Miðasala á harpa.is & tix.is- miðaverð 4900/ 4400 kr.