Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju 2019
Fimmtudagur 1. ágúst kl. 12.00 – 12.30
Steinar Logi Helgason leikur verk eftir Hafstein Þórólfsson. Hafsteinn Þórólfsson, Fjölnir Ólafsson og Örn Ýmir Arason syngja.
Miðaverð 2500 kr
Steinar Logi (f.1990) lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Nýja Tónlistarskólanum hjá Jónasi Sen og í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Önnu Þorgrímsdóttur. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og kláraði þar kirkjuorganistapróf og lauk síðar bakkalársgráðu úr Kirkjutónlistarbraut Listaháskóla íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði framhaldsnám í kirkjutónlist við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn þar sem Hans Davidsson var hans aðalkennari. Steinar hefur stjórnað fjölda kóra og starfað sem organisti, píanisti og stjórnandi á mörgum vígstöðum en Steinar stundar nú nám í kammersveitastjórnun í Konunglegu tónlistarakademíunni í Kaupmannahöfn.
Hafsteinn Þórólfsson lauk mastersnámi í söng frá Guildhall School of Music & Drama í London 2005. Vorið 2011 lauk hann BA námi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og Mastersnámi í rytmískum tónsmíðum frá Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum vorið 2015. Sem söngvari hefur Hafsteinn sex sinnum verið þátttakandi í verkefnum sem hafa unnið til verðlauna, m.a. Íslensku tónlistarverðlaunanna og Dönsku Tónlistarverðlaunanna.
Hafsteinn hefur starfað sem atvinnusöngvari í 18 ár. Hann er stofnmeðlimur og söngvari í kammerkórnum Cantoque Ensemble og einnig meðlimur kammerkórsins Schola cantorum. Hann hefur sungið inn á ótal plötur og einnig sungið inn á teiknimyndir og kvikmyndir. Hann hefur starfað með Björk, Monotown, Hjaltalín, Sigurrós, Hilmari Erni Hilmarssyni, Ragnhildi Gísladóttur og verið fulltrúi Íslands í Eurovision sem bakraddasöngvari.
“Bornholm” var samið fyrir hljómsveitina Tirilil fyrir tónleikaferð þeirra um Borgundarhólm og aðra staði í Danmörku, en verkið var pantað í framhaldi af frumflutningi á verki Hafsteins Det døende barn á Nordic Music Days í Kaupmannahöfn árið 2015.
Fjölnir Ólafsson baritón hóf 10 ára gamall nám í klassískum gítarleik en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014. Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika í Þýskalandi og á Íslandi. Þar má nefna Ein Deutsches Requiem eftir Brahms, hlutverk Jesú í Matteusarpassíu Bachs, frumflutning á ljóðaflokki fyrir baritón og kammersveit eftir Tzvi Avni sem og fjölda ljóða- og einsöngstónleika. Á óperusviðinu hefur Fjölnir farið með fjölda minni hlutverka, m.a. í ,,Tosca” og ,,Macbeth”. Þá fór hann með aðalhlutverk í nýrri barnaóperu eftir Gordon Kampe, ,,Kannst du pfeifen, Johanna”, við Saarländische Staatstheater.
Fjölnir hefur unnið til verðlauna í ,,International Richard Bellon Wettbewerb 2011”, ,,International Joseph Suder Wettbewerb 2012” og ,,Walter und Charlotte Hamel Stiftung 2013”. Fjölnir hlaut verðlaun sem Bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum 2013 og er styrktarhafi Tónlistarsjóðs Rótarý.
Örn Ýmir Arason er fæddur árið 1988. Hann hóf nám á kontrabassa ungur að aldri og hefur sungið í kórum frá 7 ára aldri. Örn nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands hjá þeim Tryggva M. Baldvinssyni og Úlfari Haraldssyni og útskrifaðist þaðan vorið 2014. Einnig var hann þar í söngnámi hjá Elísabetu Erlingsdóttur. Í dag starfar hann jafnt við söngstörf, tónsmíðar og hljóðfæraleik og er búsettur í Reykjavík.
Fimmtudagur 1. ágúst kl. 12.00
Hafsteinn Þórólfsson 1977-
Þytur úr norðri / Tempest from the North (2014)
I – Þá sá ég hvassviðri koma
II – Kerúbarnir
Bornholm (2016)
Ísland / Iceland Skuggaskil / Equinox Sunnan / Sol
Rjúpan / Rock ptarmigan