Spennandi tónleikar með Jóni Bjarnasyni dómorganista í Skálholti ásamt trompetleikurunum Vilhjálmi Inga Sigurðssyni og Jóhanni Ingva Stefánssyni

Johannes Zeinler
Johannes Zeinler, ung orgelstjarna frá Austurríki leikur á tónleikum helgarinnar 13. og 14. júlí
09/07/2019
Yves Rechsteiner
Frábærir orgeltónar í Hallgrímskirkju um helgina með Yves Rechsteiner konsertorganista frá Frakklandi
15/07/2019
Sýna allt

Spennandi tónleikar með Jóni Bjarnasyni dómorganista í Skálholti ásamt trompetleikurunum Vilhjálmi Inga Sigurðssyni og Jóhanni Ingva Stefánssyni

Jóhann Ingvi Stefánsson, Jón Bjarnason og Vilhjálmur Ingi Sigurðsson

Jóhann Ingvi Stefánsson, Jón Bjarnason og Vilhjálmur Ingi Sigurðsson

Alþjóðlegt orgelsumar í Hallgrímskirkju 2019

Fimmtudagur 18. júlí kl. 12.00 – 12.30

Jón Bjarnason organisti Skálholti leikur verk eftir Vivaldi, Bach, Mouret, Þorkel Sigurbjörnsson, Sigfús Einarsson og Manuel Rodriguez Solano ásamt Vilhjálmi Inga Sigurðarsyni og Jóhanni Ingva Stefánssyni á trompet.

Miðaverð 2500 kr

Jón Bjarnason

Jón Bjarnason

Jón Bjarnason dómorganisti í Skálholti fæddist í Skagafirði 1979 þar sem hann hóf píanónám 7 ára gamall. Hann lauk 8. stigs prófi í píanóleik frá Tónlistarskóla Skagafjarðasýslu árið 1998. Jón útskrifaðist úr Tónlistarskólanum í Reykjavík með píanókennarapróf árið 2003. Hann útskrifaðist með Kantorspróf og einleiksáfanga frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2006. Veturinn 2011-2012 lauk hann diplómu í orgelleik frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Jón hefur starfað sem píanóleikari með Karlakór Selfoss frá árinu 2011. Hann hefur komið víða fram sem píanóleikari með kórum og einsöngvurum.

Hann hélt einleikspíanótónleika í Aratungu vorið 2016 sem fengu frábærar viðtökur. Jón hefur reglulega komið fram sem einleikari á orgeltónleikum í Skálholtsdómkirkju, Selfosskirkju, Alþjóðlegu orgelsumri og Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju, Stykkishólmi og víðar. Jón hefur talsverða reynslu af kórstjórn og hefur starfað sem kórstjóri hjá mörgum kórum frá árinu 2003. Hann stjórnar Skálholtskórnum sem hefur meðal annars síðustu tvö ár tekið þátt í flutningi á kantötum eftir Johann Sebastian Bach en það er orðin hefð á Skálholtshátíð.

Einnig stjórnar Jón Söngkór Miðdalskirkju og er fastráðinn organisti við 10 kirkjur í Skálholtsprestakalli. Jón var ráðinn kantor í Skálholtsdómkirkju árið 2009. Hann hefur verið áberandi í tónlistarlífi á Suðurlandi síðustu tíu ár og hlotið styrki til tónleikahalds, m.a. frá Samtökum Sunnlenskra sveitafélaga.

Vilhjálmur Ingi Sigurðsson

Vilhjálmur Ingi Sigurðsson

Vilhjálmur Ingi Sigurðsson fæddist á Akureyri 1980. Hann lærði á trompet við Tónlistarskóla Eyjafjarðar og síðar við Tónlistarskóla Akureyrar. Vilhjálmur lauk blásara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2003. Aðalkennari hans þar var Ásgeir Hermann Steingrímsson. 

Vilhjálmur fór sama ár í framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Osló hjá prófessor Jan Frederik Christiansen, sem var 1. trompetleikari Fílharmoníusveitar Oslóar. Hann útskrifaðist með cand. magister gráðu vorið 2005. Vilhjálmur stundaði síðan meistaranám við Sibelíusarakademíuna í Helsinki hjá prófessor Jouko Harjanne og Touko Lundell. Meðfram náminu í Helsinki lék hann m.a. með Óperuhljómsveitinni í Helsinki, Sinfóníuhljómsveit Sibelíusarakademíunnar og fleiri kammerhópum. 

Vilhjálmur hefur spilað með fjölda hljómsveita og kammerhópa og hefur jafnframt reglulega komið fram sem einleikari. Hann var fulltrúi Íslands í keppni ungra norrænna einleikara árið 2004 í Osló þar sem keppendur voru frá öllum Norðurlöndunum. Meðal hljómsveita sem Vilhjálmur hefur spilað með má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hann er lausráðinn, Hljómsveit Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveitina Ísafold, Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveit æskunnar og Ungfóníu. Hann hefur einnig tekið þátt í Óperustúdíói Austurlands og sótt blásarasveitarnámskeið m.a. til Danmerkur og Finnlands á vegum Nomu. Hann er einnig meðlimur í brasshópnum Hexagon. 

Vilhjálmur hefur starfað sem hljóðfærakennari frá árinu 1999 við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, Tónlistarskóla Eddu Borg og við Skólahljómsveit Vesturbæjar. 

Hann starfaði við Tónlistarskólann á Akureyri frá árinu 2008-2013 og frá 

2013-2017 kenndi hann við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og við Skólahljómsveit Austurbæjar. Hann starfar núna við Tónlistarskóla Akureyrar. 

Jóhann Ingvi Stefánsson

Jóhann Ingvi Stefánsson

Jóhann Ingvi Stefánsson trompetleikari er fæddur og uppalinn á Selfossi og hóf tónlistarnám þar. Hann útskrifaðist úr blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1992. 

Jóhann hefur haldið tónleika í samstarfi við ýmsa tónlistarmenn og leikið með margvíslegum hljómsveitum og kammerhópum. Má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Stórsveit Reykjavíkur, Caput hópinn o.fl. Hann hefur einnig leikið í uppfærslum í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni. 

Jóhann hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. 

Hann er meðlimur í ýmsum hljómsveitum t.d. rokkhljómsveitinni Skjálftavaktinni og danshljómsveitinni Blek og Byttur. 

Jóhann er aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga.

Fimmtudagur 18. Júlí kl. 12.00

Antonio Vivaldi 1678-1741 
Concerto for two trumpets and strings 

Johann Sebastian Bach 1685-1750 
Triosonata in E flat minor BWV 525 Allegro 
Adagio Allegro 

Jean Joseph Mouret 1682-1738 
Rondeau 

Þorkell Sigurbjörnsson 1938-2013 
Heyr himnasmiður arr. Jón Bjarnason 

Sigfús Einarsson 1877-1939 
Draumalandið 

Manuel Rodriguez Solano 1977 
Fanfarria Bolero