Kammerkórinn Schola Cantorum hefur verið mikilvirkur flytjandi tónlistar undir stjórn Harðar Áskelssonar í 25 ár. Kórinn hefur á þessum árum komið víða við en látið hvað mest að sér kveða í flutningi tónlistar frá 20. og 21. öld.
Hópurinn hefur frumflutt verk eftir fjölda tónskálda og lagt áherslu á reglulegt tónleikahald og hljóðritanir. Schola Cantorum hefur unnið með fjölmörgum listamönnum og hópum við tónleikahald og upptökur fyrir geislaplötur, sjónvarp og kvikmyndir. Má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Reykjavík (sem áður var kennd við borgina Haag), Björk, Sigur Rós, Wildbirds & Peacedrums, Hjaltalín, Tim Hecker, Ben Frost, Jóhann Jóhannsson og Kjartan Sveinsson. Þá söng kórinn tónlist Bears McCreary á upptökum fyrir tölvuleikinn God of War sem Sony gaf út árið 2018 og hlaut BAFTA-verðlaunin fyrir.
Kórinn hefur haldið áfram samstarfi við tölvuleikjarisann og er afraksturs þess að vænta bráðlega. Schola Cantorum heldur reglulega tónleika erlendis og hefur hópurinn komið fram á virtum og vel sóttum tónlistarhátíðum, svo sem á Reykjavík Festival í boði Fílharmóníuhljómsveitar Los Angeles-borgar í Walt Disney Concert Hall árið 2017 og á tónlistarhátíðinni Culturescapes í Sviss árið 2015.
Kórinn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og unnið til verðlauna í keppnum í Frakklandi og á Ítalíu. Þá var kórinn tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2007 og var valinn tónlistarhópur Reykjavíkurborgar árið 2006. Schola Cantorum var útnefndur tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar tónlistar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum árið 2017. Schola Cantorum hefur sent frá sér marga geisladiska. Meditatio kom út á vegum BIS og hefur hlotið afar lofsamlega umfjöllun víða um heim. Söngur Schola Cantorum hljómar jafnframt á fleiri diskum frá BIS í heildarútgáfu fyrirtækisins á hljómsveitar- og kórverkum Jóns Leifs. Væntanlegur er hljómdiskur frá sömu útgáfu með hljóðritunum sem fram fóru í september árið 2021 í Skálholti.
Fram undan eru fleiri hljóðritanir og fjölbreytt tónleikahald. Kórinn mun koma fram á KLANG tónlistarhátíðinni í í Frederiksberskirkju í Kaupmannahöfn 14. júní og flytja The Gospel of Mary, óratóríuna sem heimsfrumflutt verður á tónleikum í Hallgrímskirkju 6. júní. Kórinn flytur verkið sömuleiðis á Alþjóðlegu kirkjutónlistarhátíðinni í Ósló 6. september 2022.
Þá er í bígerð plata á vegum BIS með nýlegum íslenskum jólalögum. Loks má nefna fyrirhugaðan flutning á Maríuvesper eftir Claudio Monteverdi í Reykjavík, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn á næsta ári, en þeim tónleikum var frestað vegna heimsfaraldursins.
Heimasíða: www.scholacantorum.is