Óratórían Guðspjall Maríu- The Gospel of Mary- eftir Huga Guðmundsson er tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna sem afhent verða í Hörpu í kvöld 22. október 2024. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt tónskáldi og tónlistarflytjanda til skiptis annað hvert ár og eru afburða listamenn í fremstu röð tilnefndir hverju sinni.
Listvinafélagið í Reykjavík er afar stolt af að eiga stóran þátt i óratóríunni Guðspjall Maríu en Hörður Áskelsson pantaði verkið sérstaklega hjá Huga fyrir hönd Listvinafélagsins í Reykjavík. Segja má að Guðspjall Maríu hafi vakið mikla athygli og hlotið afar lofsamlega dóma ásamt geisladiskinum sem kom út 2023 og fékk Hugi Guðmundsson tónskáld m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir Guðspjall Maríu sem var valið Tónverk ársins 2022 og tileinkaði hann Herði Áskelssyni verðlaunin.
Guðspjall Maríu er ný og magnþrungin óratóría eftir eitt fremsta samtímatónskáld þjóðarinnar, Huga Guðmundsson, sem samin var að beiðni Harðar Áskelssonar og Listvinafélagsins fyrir nokkrum árum og gleðilegt og mjög viðeigandi að verkið hafi verið frumflutt á 40 ára afmæli félagsins í Hallgrímskirkju í Reykjavík, en þessi stóri viðburður var samvinnuverkefni Listvinafélagsins í Reykjavík og Listahátíðar í Reykjavík og liður í 40 ára afmælishátíðarhöldum Listvinafélagsins, sem stofnað var árið 1982. Flytjendur voru norska sópransöngkonan Berit Norbakken, Schola Cantorum og Oslo Sinfonietta undir stjórn Harðar Áskelssonar.
Guðspjall Maríu var síðar flutt á tónleikum á Alþjóðlegu kirkjutónlistarhátíðinni í Osló í september sama ár með sömu flytjendum og í Reykjavík og átti sú hátíð einnig þátt í að styðja frumflutning þessa merka tónverks. Guðspjall Maríu var tekið upp fyrir danska útgáfufyrirtækið DaCapo í Árósum í júní 2022 og flutt á tónleikum á listahátíðinni KLANG í Kaupmannahöfn í tengslum við upptökurnar, en þar voru flytjendur Schola cantorum, Århus Sinfonietta og Berit Norbakken og stjórnandi Hörður Áskelsson. Diskurinn sem kom út í maí 2023 hefur fengið frábæra dóma hérlendis sem erlendis.
Texti þeirra Nilu Parly og Niels Brunse byggist að uppistöðunni til á samnefndu riti frá fimmtu öld en talið er að því hafi verið haldið leyndu þar sem það stangaðist á við kristilegan rétttrúnað síns tíma.
Guðspjall Maríu er óhefðbundin og framsækin túlkun á boðskap Jesú Krists sem vegferð til innri andlegrar visku á sama tíma og það hafnar þjáningum og dauða sem leiðum til eilífs lífs. Einnig er ýjað að því að María Magdalena hafi verið postuli sem hefur þótt eldfimur boðskapur. Þetta forna helgirit talar sterkt inn í okkar samtíma og tónskáldið lyftir guðspjallinu upp yfir stað og stund.
Listrænir aðstandendur: Hugi Guðmundsson, Hörður Áskelsson, Nila Parly, Niels Brunse, Listvinafélagið í Reykjavík, Listahátíð í Reykjavík, Alþjóðlega kirkjutónlistarhátíðin í Osló, Schola Cantorum Reykjavicensis, Oslo Sinfonietta, Berit Norbakken, Bente Johnsrud, Kåre Nordstoga, Wilhelm Hansen Forlag.
Sjá einnig hér: www.classicalexplorer.com