Nýtt verk Hreiðars Inga frumflutt í íslenskri viku á Alþjóðlegu orgelsumri

Alþjóðlegt orgelsumar hefst næsta laugardag, 18. júní
11/06/2016
Lærisveinn galdrameistarans um helgina í stórkostlegri orgelútsetningu
28/06/2016

Nýtt verk Hreiðars Inga frumflutt í íslenskri viku á Alþjóðlegu orgelsumri

Alþjóðlega orgelsumarið hófst með miklum glæsibrag um síðastliðna helgi með tónleikum unga, franska orgelsnillingsins Thomas Ospital sem hreif alla áheyrendur með innblásinni spilamennsku sinni og einstökum spunahæfileikum. Var Thomasi í lok tónleika sinna á sunnudeginum afhent sálmastef í lokuðu umslagi sem hann síðan spann magnað verk út frá þar sem hann nýtti raddir og eiginleika Klais-orgelsins með svo stórkostlegum tilþrifum að tónleikar hans munu seint gleymast. Varla var þurrt auga í kirkjunni í lok tónleika og þurftu margir tónleikagestir að fá að þakka þessum 27 ára gamla Frakka sérstaklega fyrir eftir tónleikana.

Í þessari viku er frumflutningur á nýju orgelverki eftir Hreiðar Inga hápunkturinn. Vikan verður öll með íslensku yfirbragði og verður fjöldi íslenskra orgelverka fluttur, eftir Jón Nordal, Huga Guðmundsson, Friðrik Bjarnason, Smára Ólafsson, Pál Ísólfsson og Jón Hlöðver Áskelsson.

Helgarorganisti vikunnar framundan er Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar. Björn Steinar er einhver allra besti organisti landsins, menntaður í Frakklandi og endurspeglar efnisskrá hans að þessu sinni bæði fósturjörðina og hinn franska orgelskóla en Björn mun leika verk eftir Guilmant, Viérne, Widor og Duruflé í bland við íslensku verkin. Fyrir utan hið nýja verk Hreiðars Inga má nefna að sjálf Tokkata Jóns Nordal, sú sem hann samdi til minningar um Pál Ísólfsson, verður flutt. Tónleikar Guðmundur SigBjörns Steinars verða laugardaginn 25. júní kl. 12 og sunnudaginn 26. júní kl. 17, en það er á sunnudagstónleikunum sem frumflutningurinn verður.

Á orgelsumrinu eru einnig orgeltónleikar í hádeginu á fimmtudögum og er það Guðmundur Sigurðsson, organisti Hafnarfjarðarkirkju, sem leikur næstkomandi fimmtudag, þann 23. júní kl 12. Guðmundur leikur spennandi blöndu af íslenskri, þýskri, breskri og Suður-Amerískri orgeltónlist.

3239Kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, heldur tónleika í hádeginu á miðvikudögum í sumar og eru fyrstu tónleikar þeirra þetta sumarið einmitt nú á miðvikudaginn, 22. júní. Schola cantorum er margverðlaunaður kór sem þekktur er fyrir tæran hljóm sinn. Á sumartónleikaröð kórsins verða flutt fögur a cappella verk frá 20. og 21. öldinni í bland við eldri kórperlur og verk sem endurspegla íslenskan þjóðlagaarf.

Miðasala er klukkustund fyrir tónleika við innganginn og á www.midi.is