Mikil hátíðarstemmning ríkti á jólatónleikum Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember sl.

Herdís Anna Jónasdóttir
HERDÍS ANNA JÓNASDÓTTIR SYNGUR Í STAÐ ÞÓRGUNNAR ÖNNU ÖRNÓLFSDÓTTUR Á JÓLATÓNLEIKUM MÓTETTUKÓRSINS NK. SUNNUDAG KL. 17
17/12/2021
Auður Perla Svansdóttir
Auður Perla Svansdóttir formaður Mótettukórsins jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag kl. 13
20/01/2022
Sýna allt

Mikil hátíðarstemmning ríkti á jólatónleikum Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember sl.

Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember 2021

Mikil hátíðarstemmning ríkti á jólatónleikum Mótettukórsins sem haldnir voru fyrir fullu húsi í fagurlega skreyttri Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 19. des. 2021 kl. 17.

Listvinafélagið þakkar öllum flytjendum kærlega fyrir sitt framlag og má sérstaklega nefna einsöngvarann á tónleikunum, Herdísi Önnu Jónasdóttur sópransöngkonu, sem hljóp í skarðið fyrir Þórgunni Önnu Örnólfsdóttur, sem átti upphaflega að syngja, en greindist með covid til komuna til landsins nokkrum dögum fyrir tónleikana.

 

Herdís Anna hreif alla með sínum undurfagra söng m.a. i aríu úr Messíasi og Ó, helga nótt og Mótettukórinn snerti áheyrendur djúpt með sínum fallega og hrífandi söng í fjölmörgum uppáhalds jólatónverkum kórsins gegnum árin. Einnig stigu fram 3 einsöngvarar úr kórnum og sungu einsöng af miklu öryggi og smekkvísi – þau Arnar Freyr Kristinsson barítón og sópransöngkonurnar Ásta Marý Stefánsdóttir og María Konráðsdóttir.

Orgelleikari á tónleikunum var Lára Bryndís Eggertsdóttir og stjórnandi var Hörður Áskelsson, sem er stofnandi og stjórnandi kórsins frá upphafi, en kórinn fagnar nú 40. starfsári sínu.

Flytjendum var ákaft fagnað í lok tónleikanna og söng Mótettukórinn „Heims um ból“ með áheyrendum í lokin og gekk kórinn út úr kirkjunni hummandi þennan fagra jólaboðskap í ótrúlega magnaðri stemmningu í friðsælu veðri við svanasöng á spegilsléttri Tjörninni í Reykjavík.

Listvinafélagið í Reykjavík þakkar öllum þeim fjölmörgu áheyrendum, sem sóttu jólatónleika Listvinafélagsins og Mótettukórsins bæði á Jólaóratóríunni í Hörpu í byrjun aðventu og nú í Fríkirkjunni í Reykjavík, fyrir komuna og stuðninginn á þessum erfiðu tímum. Einnig er Fríkirkjunni í Reykjavík og Gunnari Gunnarssyni organista þakkað fyrir afar ánægjulegt samstarf.

 Sjá efnisskrá hér.

Gleðilegt nýtt ár!

Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember 2021

Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember 2021

Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember 2021