Laugardaginn 7. des. kl. 18
Sunnudaginn 8. des. kl. 16
Hægt að nálgast miða í Hallgrímskirkju og á www.midi.is
Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju og úrvalslið einsöngvara flytja Messías eftir Georg Friedrich Händel undir stjórn Harðar Áskelssonar á aðventu í ár. Messías er eitt háleitasta og fegursta verk tónlistarsögunnar. Flutningur á Messíasi er hátíðarviðburður sem enginn tónlistarunnandi má láta fram hjá sér fara.
Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar hefur lengi verið meðal fremstu kóra á Íslandi. Verkefnalisti kórsins er langur og fjölskrúðugur. Þar má finna fjölmargar óratóríur, passíur og sálumessur en líka kórverk án undirleiks frá ýmsum tímum, auk þess sem kórinn hefur frumflutt fjölda íslenskra tónverka og unnið til verðlauna í alþjóðlegum kórakeppnum.
Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju er skipuð úrvalshljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum og hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn. Sveitin hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta og hljóðfæri barokktímans hér á landi.
Einsöngvarar í Messíasi verða þessir:
Herdís Anna Jónasdóttir, sópran. Hún hlaut fyrr í ár Grímuverðlaunin sem söngvari ársins fyrir frammistöðu sína í hlutverki Violettu Valéry í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Traviata eftir Verdi.
David Erler, kontratenór frá Þýskalandi. Hann er einn af eftirsóttustu einsöngvurum og barokksérfræðingum í Evrópu.
Martin Vanberg, tenór frá Svíþjóð. Hann hefur skipað sér í fremstu röð barokktenóra á Norðurlöndum.
Jóhann Kristinsson, barítón. Jóhann hlaut í fyrra Íslensku tónlistarverðlaunin í flokknum Bjartasta vonin. Honum voru árið 2017 veitt þriðju verðlaun og einnig áhorfendaverðlaun í alþjóðlegu ljóðasöngskeppninni Das Lied í Heidelberg. Þá bar hann nýverið sigur úr býtum í söngkeppninni Stella Maris.