TÓNLEIKHÚS UM TVÆR SIÐBÓTARKONUR
Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn
mánudagskvöldið 30. okt. kl. 20
Þann 30. október næstkomandi kl.20 flytur Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju tónleikhúsverkið Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn í Hallgrímskirkju. Verkið var samið í tilefni af 500 ára afmæli siðbótarinnar og er ætlað að varpa ljósi á þátttöku og áhrifa kvenna á mótunarárum siðbótarinnar.
Tónleikhúsið Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn byggir á heimildum um sögu tveggja kvenna, Elisabethar Cruciger (1500 – 1535) og Halldóru Guðbrandsdóttur (1574-1658).
Elisabeth Cruciger er þekktust fyrir að hafa verið meðal fyrstu sálmaskálda siðbótarinnar, en aðeins er varðveittur eftir hana einn sálmur sem gefinn var út í sálmabók Marteins Lúthers 1524. Um Halldóru Guðbrandsdóttur er vitað með vissu að með leyfisbréfi konungs hafði hún staðarforráð á Hólum í Hjaltadal í forföllum föður síns Guðbrands Þorlákssonar árin 1624 – 1627.
Tónefniviður tónleikhússins er kantatan „Herr Christ, der einge Gottes Sohn“ BWV 96 sem Johann Sebastian Bach (1685-1750) samdi yfir sálm Elisabethar Cruciger og messa skv. messubók Guðbrands (Grallaranum) sem fyrst var gefin út 1594 en þar var sálmur Elisabethar upphafssálmurinn.
Kammerhópinn ReykjavíkBarokk skipa að þessu sinni 12 hljóðfæraleikarar sem allir leika á upprunaleg hljóðfæri en auk þeirra koma fram á sýningunni fjórir söngvarar og leikkona.
Aðalhlutverkin í sýningunni verða í höndum Maríu Ellingsen leikkonu og einsöngvaranna Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur, Jóhönnu Halldórsdóttur, Braga Bergþórssonar og Benedikt Ingólfssonar.
Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju undir stjórn Ásu Valgerðar Sigurðardóttur ásamt félögum úr dömukórnum Aurora undir stjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur leiða söng. Konsertmeistari ReykjavíkBarokk á sýningunni verður Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðluleikari og höfundar handrits og listrænir stjórnendur verkefnisins eru Diljá Sigursveinsdóttir, fiðluleikari og Guðný Einarsdóttir, organisti.
Miðasala á www.midi.is og við innganginn 1 klst. fyrir viðburðinn. Miðaverð 2.500 kr, hálfvirði fyrir börn og listvini.