Laugardaginn 3. febrúar kl. 17:00 býður Listvinafélag Hallgrímskirkju til listamannaspjalls í Hallgrímskirkju í tengslum við sýningu Erlings Páls Ingvarssonar, Birting/Illumination.
Erlingur mun ræða um sýninguna og svara fyrirspurnum gesta.
Rósa Gísladóttir sýningarstjóri og myndlistarmaður mun opna umræðurnar.
Léttar veitingar verða í boði. Allir eru hjartanlega velkomnir!
“Sýningin er tileinkuð vaxandi birtu með tilvísun í þann árstíma sem hún stendur yfir, og einnig birtingu myndverks vegna samruna íhugunar, efnis og athafnar. Fyrir mér er birting hreyfing, hreyfiafl, og hluti af hringferli sköpunar, bæði í náttúru og list.”
Segir Erlingur Páll.
Erlingur Páll Ingvarsson (1952) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1974-1978. Að því loknu fór hann í framhaldsnám til Hollands í De Vrije Academie in Den Haag með búsetu í Amsterdam og síðan til Þýskalands í Die Kunstakademie Düsseldorf. Listamenn á borð við Joseph Beauys og Nam June Paik lifðu þá og störfuðu í Düsseldorf og voru viðriðnir listaháskólann, og var það mikið aðdráttarafl.
Erlingur Páll á að baki sjö einkasýningar og nokkrar samsýningar.
Listform hans hefur spannað vítt svið, meðal annars skúlptúr innsetningar, gjörninga, ljósmyndir og texta, en hann hefur nú um skeið notað málverk sem sinn aðal miðil. Erlingur var virkur meðlimur á upphafsárum Nýlistasafnsins og um tíma í stjórn þess. Hann býr og starfar sem myndlistarmaður í Reykjavík.
Sýningin í Hallgrímskirkju stendur til 18. febrúar 2018 og er sölusýning.
Smellið hér til að skoða sýningarskrána