Lærisveinn galdrameistarans um helgina í stórkostlegri orgelútsetningu

Nýtt verk Hreiðars Inga frumflutt í íslenskri viku á Alþjóðlegu orgelsumri
21/06/2016
Orgelverk eftir konur, frönsk músík og íslenskur tónlistararfur í þessari viku á Orgelsumrinu
05/07/2016
Sýna allt

Lærisveinn galdrameistarans um helgina í stórkostlegri orgelútsetningu

Waalse Kerk sessie Juni 2014 Leo van Doeselaar AoB

Mikki mús og teiknimyndin Fantasía kunna að vera það fyrsta sem kemur upp í huga margra þegar verkið Lærisveinn galdrameistarans ber á góma, enda var myndskreyting Walt Disneys og félaga við þetta frásagnarríka tónverk Paul Dukas afar vel heppnuð. Mikki mús verður þó víðs fjarri á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju um helgina – nema þá í hugum áheyrenda mögulega – en það verður hinn afburðafæri, hollenski organisti Leo van Doeselaar sem dregur upp tónmyndirnar og segir söguna af hinum lánlausa lærlingi með fingrafimi sinni. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta þekkta verk er leikið í þessari útsetningu hérlendis og mun orgelið vera í hlutverki heillar hljómsveitar hvorki meira né minna.

Og ekki veitir af fimi bæði handa og fóta, því orgelútsetning svissneska tónskáldsins Lionels Roggs þykir svo flókin að það er aðeins á færi þeirra sem búa yfir mestu tækninni að leika hana. En Van Doeselaar er meðal færustu organista í veröldinni um þessar mundir og verður sannarlega spennandi að upplifa flutning hans á þessu magnaða verki á bæði laugardag kl. 12 og sunnudag kl. 17. Van Doeselaar gegnir virtri stöðu organista Concertgebouw í Amsterdam og hefur leikið um allan heim á tónleikum og meðal annars tekið upp öll orgelverk Bachs.hordur

Hin fræga Tokkata og fúga Bachs

Raunar er Fantasía Disneys heldur ekki langt undan á fimmtudagstónleikum vikunnar, vegna þess að þá flytur Hörður Áskelsson, organisti Hallgrímskirkju og listrænn stjórnandi Orgelsumarsins, d-moll Tokkötu og fúgu Bachs, sem er einmitt upphafsverk teiknimyndarinnar þekktu. Á sömu tónleikum verður Tokkata Jóns Nordal einnig flutt, magnað orgelverk sem hann samdi í minningu Páls 3239Ísólfssonar og seint verður of oft leikið og að lokum hið tregafulla Adagio eftir Albinoni og Giazotto. Tónleikarnir hefjast kl. 12.

Tær söngur Schola Cantorum

Hinn margverðlaunaði kammerkór Hallgrímskirkju syngur að vanda tónleika í hádeginu á morgun, miðvikudag. Á efnisskránni eru íðilfögur kórverk án undirleiks sem valin eru með tilliti til hljómburðar kirkjunnar. Má þar nefna The Lamb eftir Tavener og Hvíld eftir Huga Guðmundsson en einnig verða sungin íslensk þjóðlög í kórútsetningum. Tónleikarnir hefjast kl. 12.

 

Miðasala er við innganginn klukkutíma fyrir alla tónleika og á www.midi.is fyrir tónleika van Doeselaars um helgina.

 

Miðaverð:

Miðvikudagar 2500 kr

Fimmtudagar 2000 kr

Laugardagar 2000 kr

Sunnudagar 2500 kr