Konur láta ljós sitt skína á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju

Alþjóðlegt orgelsumar 2015
11/06/2015
Fjölnir Ólafsson
Hörður Áskelsson, orgel og Fjölnir Ólafsson, barítón á hádegistónleikum fimmtudagsins
09/07/2015
Sýna allt

Konur láta ljós sitt skína á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju

Steinunn Skjenstad

Haldið er upp á 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna um þessar mundir og á það því vel við að konur láta ljós sitt skína þessa dagana á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju.

Iveta ApkalnaBer þar fyrst að nefna orgeldívuna Ivetu Apkalna en hún er án efa ein af skærustu stjörnum orgelheimsins í dag. Það eru hins vegar Lenka Mateova, orgel og Steinunn Skjenstad, sópran sem slá upptaktinn að tónleikum Ivetu með hádegistónleikum fimmtudaginn 18. júní kl. 12. Steinunn Soffía Skjenstad er íslensk-norsk sópransöngkona búsett í Þýskalandi.

Hún hefur starfað við óperuna í Lübeck undanfarin ár en hefur auk þess sérstakt yndi af ljóðasöng og nýsköpun á sviði óperunnar og í tónlistarflutningi. Lenka  Mátéová er fædd í Tékkóslóvakíu.  Hún lauk kantorsprófi frá Konservatoríunni Kromeriz og masternámi við Tónlistarakademíuna í Prag.

Á námsárunum vann hún til margra verðlauna í heimalandi sínu og hefur leikið einleik í Rússlandi og Þýskalandi. Lenka starfar nú sem kantor Kópavogskirkju. Tónleikar Lenku og Steinunnar hefjast kl. 12 fimmtudaginn 18. júní, sem áður segir, og á efnisskránni eru fallegar perlur eftir W.A. Mozart og J.S. Bach, Pie Jesu úr Requiem eftir Fauré og Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns.

Lenka MateovaHin margverðlaunaða orgelstjarna Iveta Apkalna heldur síðan tvenna tónleika um næstu helgi, þar sem hún blæs nýju lífi í tónlist eftir A. Kalejs, C. Franck, J.S. Bach, Eschaich, Glass og Liszt. Frægð Ivetu byggir á ótrúlegri tækni, tónlistarlegri næmni og mikilli útgeislun sem gera tónleika hennar að hreinni upplifun. Iveta Apkalna er frá Lettlandi en býr í dag bæði í Riga og Berlín. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar og verðlaun, m.a. þýsku tónlistarverðlaunin Eccho árið 2005, auk fyrstu verðlauna í rússnesku Tariverdiev orgelkeppninni og Bach verðlaunanna í alþjóðlegu Royal Bank Calgary orgelkeppninni í Kanada.

Iveta hefur lagt metnað sinn í að færa orgeltónlistina inn í tónlistarhúsin og hefur leikið einleik í frægustu tónleikahúsum um allan heim.  Hún hefur einnig komið fram með mörgum sinfóníuhljómsveitum í heimsklassa undir stjórn Claudio Abbado, Mariss Jansons, Marek Janowski, Simone Young og Roman Kofman, svo einhverjir séu nefndir.

Tvö tækifæri eru til að upplifa tónleika Ivetu í Hallgrímskirkju, á hádegistónleikum laugardaginn 20. júní kl. 12 og á lengri og efnismeiri tónleikum sunnudaginn 21. júní kl. 17.

Miðaverð er 2000 kr á laugardaginn og 2500 kr á sunnudaginn. Miðasala fer fram við innganginn.