Jól með Schola cantorum – Gamlir og nýir söngvar jólanna

Hátíð fer að höndum ein – Jólatónleikar Schola cantorum 17. des kl. 12
15/12/2014
Trompetar og orgel
Hátíðarhljómar á Gamlárskvöld
24/12/2014
Sýna allt

Jól með Schola cantorum – Gamlir og nýir söngvar jólanna

Jól með Schola cantorum

Kammerkórinn Schola cantorum heldur jólatónleika í Hallgrímskirkju sunnudaginn 28. desember kl. 17.

Tónlistin er úr ýmsum áttum en einkennist öll af hátíðlegum andblæ jólahátíðarinnar þar sem kórinn mun syngja lög allt frá þýskum meisturum 16. aldar til nýrra verka, auk vel þekktra jólalaga.

Af íslenskum verkum tónleikanna ber hæst frumflutning á fjórum jólalögum eftir Hafliða Hallgrímsson en undanfarið hafa jólalög hans fyrir kóra vakið athygli í Englandi þar sem hann er búsettur. Vel þekkt lög, bæði íslensk og erlend munu hljóma og má þar nefna Betlehemsstjörnuna eftir Áskel Jónsson, Jólagjöfina eftir Hörð Áskelsson og Ó, helga nótt eftir Adams.

Einsöngvarar eru Fjölnir Ólafsson barítón, Hildigunnur Einarsdóttir alt og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran auk þess sem aðrir einsöngvarar úr röðum kórfélaga syngja einsöngsstrófur.

Organisti er Björn Steinar Sólbergsson og stjórnandi Hörður Áskelsson.

Schola cantorum kemur nú fram í 24. skipti á þessu ári ásamt stjórnanda sínum Herði Áskelssyni. Að venju hefur víða verið komið við í tónlistarflutningi á árinu. Kórinn hélt síðast tónleika í Storkyrkan í Stokkhólmi í nóvember síðastliðnum þar sem hann söng meðal annars verk eftir Arvo Pärt, James MacMillan, Eric Withacre og kórfélagana Sigurð Sævarsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Að auki hélt kórinn kynningu á íslenskum tónlistararfi í Konunglega Tónlistarháskólanum í Stokkhólmi.

Schola cantorum hefur jafnan sinnt fjölbreytilegum verkefnum fyrir utan hefðbundið tónleikahald. Kórinn söng meðal annars á Listahátíð í Reykjavík verk Ragnars Kjartanssonar og Kjartans Sveinsonar, Der Klang der Offenbarung des Göttlichen. Einnig má nefna upptökur á tónlist eftir Ben Frost fyrir BBC og nú síðast um miðjan desember söng kórinn í upptökum fyrir kanadíska raftónlistarmanninn Tim Hecker og Bedroom Community.

Á komandi ári mun Schola cantorum halda tónleika í mars þar sem endurreisnartónlist verður í öndvegi

Miðaverð 3.500 kr./ 2.500 kr. og hálfvirði fyrir Listvinafélaga (Afsláttinn er aðeins hægt að nýta í Hallgrímskirkju)

Nánari upplýsingar veita Hörður Áskelsson s. 693 6690 og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir s. 695 6326