Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024
Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024
23/10/2024
JÓLAÓRATÓRÍAN I-III og V eftir J.S.Bach sunnudaginn 29. des kl. 17 í Eldborg Hörpu
JÓLAÓRATÓRÍAN I-III og V eftir J.S.Bach sunnudaginn 29. des kl. 17 í Eldborg Hörpu
29/10/2024
Sýna allt

Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Hörður Áskelsson, orgelleikari, söngstjóri og listrænn stjórnandi Listvinafélagsins í Reykjavík, er heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024. Þessi nafnbót er ein mesta viðurkenning sem íslenskum tónlistarmanni getur hlotnast og til marks um einstæðan feril Harðar og ómetanleg áhrif hans á tónlistarlíf landsins um áratugaskeið.

Afhending Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024 fór fram í Silfurbergi í Hörpu þriðjudagskvöldið 12. mars 2024 og var í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Það var Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra sem kynnti heiðursverðlaunahafann og sagði hún við það tækifæri:

Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

„Það er mér sannur heiður að fá að afhenda þessi verðlaun í kvöld. Hörður Áskelsson er frumkvöðull sem hefur haft eldhjarta til að flytja tónlist og gleðja okkur. Gjörsamlega magnaður maður.“

Í þakkarræðu Harðar, sem Áskell sonur hans flutti, sagði meðal annars:

„Með mikilli auðmýkt þakka ég þann mikla heiður sem mér er sýndur hér í kvöld. Ég er óendanlega þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem mér hafa gefist á löngum ferli til að iðka tónlist, fylgja eftir hugmyndum mínum allt frá því að mér var ungum manni treyst til að taka við kantorsstöðu í þjóðarhelgidómi á Skólavörðuholti sem þá var enn á byggingarstigi.“

Í kjölfar ræðunnar steig Mótettukórinn á svið í Silfurbergi og flutti útsetningu Jóns Hlöðvers Áskelssonar, bróður Harðar, á Víst ertu, Jesú, kóngur klár undir stjórn Lenku Mátéovu.

Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson fæddist á Akureyri 22. nóvember 1953, sonur Áskels Jónssonar söngstjóra og organista frá Mýri í Bárðardal og Sigurbjargar Hlöðversdóttur húsmóður frá Djúpavogi.

Hörður hóf tónlistarnám sjö ára að aldri á Akureyri og varð stúdent frá M.A. 1973. Hann lauk Tónmenntakennaraprófi 1975 og burtfararprófi í orgelleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann stundaði framhaldsnám við Robert Schumann tónlistarháskólann í Düsseldorf í Þýskalandi á árunum 1976 til 1981. Þaðan lauk hann A-prófi í kirkjutónlist með besta vitnisburði árið 1981.

Hörður var organisti Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 1973 til 1976 og organisti í Neanderkirche í Düsseldorf 1981 til 1982. Það ár kom hann heim og var ráðinn organisti og kantor Hallgrímskirkju. Því starfi gegndi hann frá 1982 til 2021.

Á þessum tíma gegndi Hörður lykilhlutverki við uppbyggingu listalífs í Hallgrímskirkju. Hann stóð að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju (sem nú nefnist Listvinafélagið í Reykjavík), Kirkjulistahátíðar, Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju og Sálmafoss á Menningarnótt. Hann stofnaði Mótettukór Hallgrímskirkju árið 1982 og stjórnaði honum frá upphafi. Hörður stofnaði einnig kammerkórinn Schola Cantorum árið 1996 og var stjórnandi hans frá upphafi. Báðir þessir kórar hafa verið í fremstu röð íslenskra kóra um árabil.

Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Hörður hefur komið að frumflutningi fjölmargra tónverka sem hafa verið samin séstaklega fyrir hann og kóra hans af íslenskum tónskáldum. Þar að auki hefur hann stjórnað öllum helstu verkum kórtónbókmenntanna.

Hann hefur miðlað reynslu sinni við fjölbreytt kennslustörf, meðal annars sem kennari við ýmsa tónlistarskóla en einnig sem lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður hefur ritað talsvert um tónlist auk þess að semja ógrynni af mótettum, sálmalögum og sönglögum um ævina.

Hörður hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði tónlistar, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin, Menningarverðlaun DV og Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Hann var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2002 og hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004. Hörður hlaut Liljuna, viðurkenningu þjóðkirkjunnar, árið 2022 fyrir ævistarf sitt sem kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík og hið mikla tónlistarlega frumkvöðlastarf sitt.

Myndir: ruv.is