Hörður Áskelsson var organisti og kantor Hallgrímskirkju í 39 ár frá 1982 til 2021. Hann flutti heim til Íslands eftir að hafa stundað kirkjutónlistarnám í Düsseldorf í Þýskalandi sem hann lauk með hæstu einkunn vorið 1981. Hann gegndi lykilhlutverki við uppbyggingu listalífs í Hallgrímskirkju og við val á Klais-orgeli kirkjunnar. Hann stóð að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju (sem nú nefnist Listvinafélagið í Reykjavík), Kirkjulistahátíðar, Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju og Sálmafoss á Menningarnótt.
Árið 1982 stofnaði Hörður Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola Cantorum árið 1996. Báðir hafa kórarnir verið í fremstu röð íslenskra kóra. Með þeim hefur hann flutt flest helstu kórverk sögunnar, bæði með og án undirleiks. Þá hefur hann stjórnað frumflutningi margra verka fyrir kór og hljómsveit sem íslensk tónskáld hafa skrifað fyrir hann.
Hörður hefur ásamt kórum sínum tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og tónlistarkeppnum á alþjóðlegum vettvangi og unnið til fjölmargra verðlauna. Hörður hefur haldið tónleika í mörgum stærstu kirkjum Evrópu, bæði sem kórstjóri og organisti, m.a. í Kölnardómkirkju, Notre-Dame og Saint-Sulpice í París, og dómkirkjunum í Frankfurt, Brussel, Helsinki og Basel.
Tónlistarflutningur Harðar hefur oftsinnis verið tekinn upp fyrir sjónvarp og útvarp og verið gefinn út á geislaplötum sem hafa hlotið frábæra dóma í íslenskum og erlendum blöðum. Hörður hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins 2001 og Menningarverðlaun DV árið 2002, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004 og Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2006. Þá var hann útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2002. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og á árunum 1985–1995 var hann lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands.
Hörður var tónlistarstjóri hátíðarhalda í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi árið 2000 og hann gegndi embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005–2011. Í mars 2022 hlaut Hörður Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir árið 2021 með Mótettukórnum í flokki hópa sem flytjandi ársins á sviði sígildrar tónlistar og samtímatónlistar og í apríl hlaut hann Liljuna, viðurkenningu þjóðkirkjunnar, fyrir ævistarf sitt sem kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík og fyrir hið mikla tónlistar- og frumkvöðlastarf sitt í kirkjunni.
Hörður er nú sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og stjórnandi kóra sinna, Mótettukórsins og Schola Cantorum, og einnig stjórnandi Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík. Hann er sömuleiðis listrænn stjórnandi Listvinafélagsins í Reykjavík.
Hörður Áskelsson ferilságrip og ferilsskrá