Hádegistónleikar í Hallgrímskirkju – 18. ágúst 2016 kl. 12

Útgáfutónleikar Schola cantorum, drottningararía og Bach-veisla í vikunni
09/08/2016
Hallgrímskirkja - Sálmafoss 2016
Sálmafoss 2016 í Hallgrímskirkju 20. ágúst 15:00 – 21:00
19/08/2016
Sýna allt

Hádegistónleikar í Hallgrímskirkju – 18. ágúst 2016 kl. 12

Kári Allansson, organisti

Kári Allansson, organisti við Háteigskirkju í Reykjavík er síðastur í röð íslenskra organista,  sem leika á fimmtudagstónleikaröð Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju í sumar.  Kári hefur oft komið fram og leikið á  stóra Klais orgelið í kirkjunni og er það mikið tilhlökkunarefni að heyra hann nú leika mjög skemmtilega og fjölbreytta efnisskrá með Tokkötu og fúgu í d-moll eftir J.S. Bach, Adagio eftir Magnús Blöndal Jóhannsson og tilbrigði um sálm eftir Susanne Kugelmeier.  Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa í u.þ.b. hálfa klukkustund. Miðasala er á midi.is og við innganginn 1 klst fyrir tónleikana. Miðaverð er 2000 kr.

Kári Allansson lærði bæði á fiðlu, gítar og píanó en sneri sér síðan að orgelnámi við Listaháskóla Íslands og Tónskóla þjóðkirkjunnar þar sem hann lærði hjá Birni Steinari Sólbergssyni. Hann stundaði síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð hjá Hans-Ola Ericsson. Kári hefur haldið einleikstónleika hérlendis og í Svíþjóð en hann leikur einnig annars konar tónlist en kirkjulega með ýmsum hljómsveitum. Kári hefur gegnt stöðu organista við Óháða söfnuðinn, við Grindavíkurkirkju og gegnir nú sömu stöðu við Háteigskirkju. Kári mun á tónleikunum flytja verk eftir Bach, Kugelmeier og fleiri.

Efnisskrá 18. ágúst kl. 12

J.S. Bach: Tokkata & Fúga í d-moll BWV 565

Magnús Blöndal Jóhannsson: Adagio- umritun fyrir orgel.

Susanne Kugelmeier:
Danke Für Diesen Guten Morgen – Tilbrigði.