Fólk og fiskar, orgel og unaðslegur söngur um hvítasunnuna

Nordal í níutíu ár – Listaháskólinn og Listvinafélagið heiðra Jón Nordal í tilefni níræðisafmælis hans
28/04/2016
Alþjóðlegt orgelsumar hefst næsta laugardag, 18. júní
11/06/2016
Sýna allt

Fólk og fiskar, orgel og unaðslegur söngur um hvítasunnuna

Myndarleg hátíðahöld einkenna hvítasunnuna í Hallgrímskirkju ár hvert og er meðal annars orðin árviss hefð að hinn hæfileikaríki Mótettukór haldi tónleika án undirleiks þá helgi. Að þessu sinni verður einnig opnuð spennandi myndlistarsýning Huldu Hákon í kirkjunni og Hörður Áskelsson heldur glæsilega orgeltónleika með hvítasunnutónlist.

Hátíðin hefst um hádegisbil laugardaginn 14. maí með tónleikum Harðar. Leikin verða hvítasunnutengd orgelverk eftir J.S. Bach, D´Grigny og Buxtahude. Á sunnudagsmorgninum verður hátíðarmessa þar sem Mótettukór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Harðar Áskelssonar. Dr. Sigurður Árni Þórðarson messar og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið. Á annan í hvítasunnu mun dr. Sigurður einnig messa og um tónlist sjá félagar úr Mótettukórnum og Björn Steinar.
eldhafStrax eftir sunnudagsmessuna, kl. 12.15, opnar ný myndlistarsýning í forkirkjunni. Hulda Hákon er landsmönnum að góðu kunn fyrir afar skemmtilegar, fígúratífar lágmyndir. Sýning hennar kallast Pétur og samanstendur af lágmyndum er hafa tengsl við sjósókn Íslendinga og trúna á heilagan Pétur, fiskveiðimanninn unga er gerðist lærisveinn Jesú. Sýningin stendur til 28. ágúst og eiga myndir Huldu áreiðanlega eftir að gleðja þann fjölda gesta sem í kirkjuna kemur í sumar. Allir eru velkomir á þessa skemmtilegu opnun og verða léttar veitingar í boði.

MÓTÓkórmynd2014Rúsínan í pylsuenda þessarar ágætu hvítasunnuhelgar verða svo tónleikar Mótettukórsins, sem hefjast kl. 17 hvítasunnudaginn 15. maí. Til landsins er væntanlegur hinn þekkti, þýski upptökustjóri Jens Ulrich Braun sem meðal annars hefur gert hefur fjölda vandaðra upptaka fyrir BIS og mun taka upp nýja geislaplötu kórsins. Mótettukórinn og Hörður hafa valið uppáhaldsverk kórsins frá 35 ára ferli hans og æft af kappi fyrir upptökurnar framundan. Kórinn mun flytja þessi uppáhaldsverk á tónleikunum, þar á meðal þætti úr Messu eftir Frank Martin, kafla úr Vesper eftir Rachmaninoff, verk eftir Bruchner, Messiaen, Pablo Casals, Durufle, Knut Nystedt, Hreiðar Inga og Halldór Hauksson.

Aðgangseyrir á tónleika Harðar Áskelssonar er 2000 krónur og á tónleika Mótettukórsins 3500 krónur en aðrir viðburðir eru ókeypis.

Miðasala á tónleika Harðar er við innganginn og í verslun Hallgrímskirkju. Miðasala á tónleika Mótettukórsins er á midi.is og í verslun Hallgrímskirkju.