Finlandia, Gotneska svítan og þjóðsöngurinn á Orgelsumri þessa vikuna

Óbó, hanagal og heimsþekkur, bandarískur organisti
26/07/2016
Útgáfutónleikar Schola cantorum, drottningararía og Bach-veisla í vikunni
09/08/2016
Sýna allt

Finlandia, Gotneska svítan og þjóðsöngurinn á Orgelsumri þessa vikuna

Hinn hátíðlegi og fallegi þjóðsöngur Íslands, Lofsöngur, þótti löngum illsyngjanlegur fyrir venjulegt fólk auk þess sem á honum hvíldi ákveðin helgi og heyrðist hann því helst á tyllidögum. En það hefur breyst hratt á undanförnum árum. Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur lagt sitt af mörkum í sumar og fært 3239áheyrendum sínum Lofsönginn í lok hverra vikulegra tónleika sinna á Alþjóðlegu orgelsumri. Verður engin undantekning á því á miðvikudagstónleikunum þessa vikuna. Á tónleikum sínum flytur kórinn nokkur allra fegurstu kórlög sem til eru á Íslandi og er Lofsöngurinn þar í góðum félagsskap tónsmíða á borð við Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Smávinir fagrir eftir Jón Nordal.

Kórinn býður bæði íslenskum og erlendum gestum upp á kaffi, mola og spjall eftir tónleikana í safnaðarheimili Hallgrímskirkju. Gefst þá bæði tækifæri til að ræða við söngvarana og kynna sér glænýjan hljómdisk kórsins, Meditatio, sem kemur formlega út í næstu viku. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.

Tónleikarnir hefjast kl. 12. Aðgöngumiðar eru seldir klukkustund fyrir tónleika í anddyri kirkjunnar og kosta kr. 2500.

 

Friðrik Vignir Stefánsson leikur tvær, glæsilegar franskar orgelsvítur á tónleikum 472102_3193577972707_1841783852_osínum á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju næstkomandi fimmtudag. Fyrri svítan, Suite du Deuxieme Ton, er samin um 1710 og er eftir barokktónskáldið Louis-Nicolas Clérambault. Sú síðari er sjálf Gotneska svítan eftir Léon Boëllmann frá síðari hluta 19. aldar, eitthvert tilþrifamesta orgelverk sem samið hefur verið og er þá sérstaklega lokakafli svítunnar, tokkatan dramatíska, þekkt. Gotneska svítan telst vera uppistöðuverk í orgeltónbókmenntunum og er ávallt fengur að því að heyra hana flutta á hið magnaða Klais-orgel Hallgrímskirkju.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og eru hálf klukkustund. Aðgangseyrir er 2000 krónur og verða miðar seldir við innganginn frá klukkan ellefu sama dag.

 

Hið alvöruþrungna Finlandia eftir Sibelius hljómar í Hallgrímskirkju á laugardag og sunnudag, en þá leikur sænski organistinn Mattias Wager eigin orgelútsetningu á hljómsveitarverkinu þekkta. Margt spennandi er á efnisskrá Wagers, en hann leikur einnig verk byggð á sænskum þjóðlögum, sígild, frönsk orgelverk og Air eftir J.S. Bach.

Wager þykir búa yfir einstökum spunahæfileikum og fá áheyrendur að njóta þeirra um helgina því að á sunnudeginum mun hann meðal annars leika tvo spuna út frá íslenskum lögum, annan í frönskum barokkstíl en hinn með norrænum blæ. Wager er organisti við Storkyrkan í Stokkhólmi og hefur verið tíður gestur í Hallgrímskirkju allt frá vígslu Klais-orgelsins. Leikur hans hefur sett mikinn svip á tónlistarlífið í Hallgrímskirkju gegnum tíðina.

Tónleikar Mattiasar Wager eru laugardaginn 6. ágúst kl. 12 (aðgangseyrir 2000 kr) og sunnudaginn 7. ágúst kl. 17 (aðgangseyrir 2500 kr). Miðasala fer fram við innganginn klukkustundu fyrir tónleika og á midi.is.