Auður Perla Svansdóttir formaður Mótettukórsins jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag kl. 13

Jólatónleikar Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember 2021
Mikil hátíðarstemmning ríkti á jólatónleikum Mótettukórsins í Fríkirkjunni 19. desember sl.
03/01/2022
Tónlistarviðburður ársins- Jólaóratórían eftir J.S. Bach hlýtur tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022
Tónlistarviðburður ársins- Jólaóratórían eftir J.S. Bach hlýtur tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022
30/03/2022
Sýna allt

Auður Perla Svansdóttir formaður Mótettukórsins jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag kl. 13

Auður Perla Svansdóttir

Minningarorð frá stjórn Listvinafélagsins

Látin er kær samstarfskona okkar í Listvinafélaginu í Reykjavík. Auður Perla sat í stjórn félagsins í 3 ár í tengslum við stjórnarstörf hennar fyrir Mótettukórinn og vann þétt og náið með allri stjórninni að skipulagi fjölmargra viðburða á vegum félagsins í gegnum árin. Af nýlegum viðburðum má nefna Jólaóratóríu Bachs í Eldborg Hörpu í nóvember á síðasta ári, en að auki má nefna ótal tónleika og önnur verkefni Mótettukórsins þar sem hún söng einnig sópran.

Eins og margir fengu að kynnast í kringum Perlu var hún öflug í félagsstarfi og naut þess bæði að gleðjast sjálf og sjá til þess að samferðafólk hennar fengi að fagna eins og best yrði á kosið. Hún tók á erfiðum málum af mjúkri festu, reyndi að leiða saman ólík sjónarmið og bauð af sér mikinn náungakærleik þegar mest á reyndi. Þegar félagið gekk í gegnum mikla umbreytingatíma 2020–2021 í tengslum við brottför þess úr Hallgrímskirkju, með tilheyrandi flutningum, leiddi hún þá vinnu af mikilli ósérhlífni og dug og bar ávallt hagsmuni samferðamanna sinna og dýrmætt listastarf fyrir brjósti.

Hún brann fyrir tónlist, söng og samfélagi mannanna og við erum afar þakklát að hafa fengið að vera henni samferða þessi seinustu ár. Við kveðjum góða vinkonu og samstarfskonu og sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Listvinafélagsins í Reykjavík; Alexandra Kjeld, Helgi Steinar Helgason, Rósa Gísladóttir, Benedikt Ingólfsson, Halla Björgvinsdóttir, Halldór Hauksson, Ágúst Ingi Ágústsson, Inga Rós Ingólfsdóttir og Hörður Áskelsson

Minningarorð frá stjórnanda Mótettukórsins Herði Áskelssyni og framkvæmdastjóra Listvinafélagsins, Ingu Rós Ingólfsdóttur:

Elsku Auður Perla var sannur gleðiberi, brosið hennar lýsandi, af augum hennar stafaði hlýjum kímnisglampa. Hún kom til liðs við sópraninn í Mótettukór Hallgrímskirkju árið 2008 og reyndist kórnum hinn mesti happafengur. Hún var með fallega rödd og sérlega góða nærveru. Með kórnum söng hún m.a. kantötur, mótettur og sálma eftir Bach og Händel, Mozart og Hafliða Hallgrímsson. Hún tók þátt í reglubundnu helgihaldi í þjóðarhelgidóminum á Skólavörðuholtinu, þar sem kórinn hafði stórt hlutverk. Hún tók að sér alls konar verkefni fyrir kórinn og var valin til setu í stjórn hans og síðar einnig til setu í stjórn Listvinafélagsins. Hennar framlag til söngstarfsins er ómetanlegt, hún gaf mikið af sér, jákvæðni og elskuleg framkoma einkenndu allt hennar fas í öllum verkefnum, stórum og smáum.

Árið 2019, skömmu fyrir jólatónleika Mótettukórsins í Hallgrímskirkju þar sem óratórían Messías var flutt, tók hún við formennsku í stjórn kórsins. Ekki var hægt að sjá fyrir þá, hvaða erfiðu verkefni stjórnin þyrfti að glíma við næstu misseri, sem voru bæði heimsfaraldur og skilnaður Mótettukórs og Hallgrímskirkju. Í þeim mikla ólgusjó sem gekk yfir stóð Perla sig eins og hetja og reyndist okkur hjónum mikil stoð og stytta. Tvennir jólatónleikar Mótettukórsins í Hörpu og Fríkirkjunni í Reykjavík undir lok síðasta árs reyndust vera hennar síðustu stundir með kórnum. Við upphaf tónleikanna í Fríkirkjunni við Tjörnina steig hún fram og bauð gesti velkomna með sínu fallega brosi. Í lok tónleikanna var sungið Heims um ból, kórinn gekk syngjandi út undir bert loft, í tjörninni speglaðist stjörnubjartur himinn, sem með kórsöngnum kallaði fram „himneska“ jólastemningu. Þarna söng elsku Auður Perla sinn hinsta söng með Mótettukórnum sem svo lengi var búinn að vera hennar.

Á næstu tónleikum sem Mótettukórinn tekur þátt í verður flutt Þýsk sálumessa eftir Brahms. Perla hafði mikið dálæti á þessu verki og eins og aðrir kórfélagar hlakkaði hún mikið til flutningsins. Við trúum og vonum að söngfélagar og fjölskylda Perlu megi finna huggun í tónlist Brahms við áhrifaríka ritningartexta um dauðann og himnaríki. „Þeir sem sá með tárum uppskera með gleðisöng“. Tárvot treystum við því að Perla syngi og brosi í eilífðarríki kærleikans.

Í mikilli sorg og djúpu þakklæti kveðjum við Auði Perlu Svansdóttur. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hennar, Kjartani, börnunum, móður og systkinum. Blessuð sé minning hennar.

Hörður og Inga Rós