ALÞJÓÐLEGA BAROKKSVEITIN Í REYKJAVÍK
Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík (áður Hallgrímskirkju/Den Haag) er skipuð úrvals hljóðfæraleikurum víðs vegar að úr heiminum, en meðlimir sveitarinnar eiga það flestir sameiginlegt að hafa numið við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi sem er leiðandi í kennslu á barokkhljóðfæri. Að námi loknu hafa meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar haslað sér völl sem eftirsóttir hljóðfæraleikarar og leika nú reglulega með mörgum af helstu upprunasveitum heims undir stjórn nafntogaðra stjórnenda. Má þar nefna hljómsveitir á borð við Les Arts Florissants, Amsterdam Baroque Orchestra, Bach Collegium Japan, Orchestra of the Age of Enlightenment, Collegium Vocale Gent og stjórnendur á borð við William Christie, Ton Koopman, Masaaki Suzuki og Philippe Herreweghe.
Meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá því að þeir komu fyrst til að taka þátt í flutningi á Jólaóratóríu Bachs á Jólatónlistarhátíð Hallgrímskirkju árið 2004 og aftur 2005. Sveitin kom fram á Kirkjulistahátíðum 2005, 2007, 2015 og 2019, lék á 30 ára afmælistónleikum Mótettukórsins og 30 ára vígsluafmælistónleikum Hallgrímskirkju. Alþjóðlega barokksveitin kom fram í Eldborg Hörpu ásamt Mótettukórnum undir stjórn Harðar Áskelssonar í flutningi Jólaóratóríunnar í nóvember 2021 og í flutningi Messíasar í nóvember 2022. Á glæsilegum lokatónleikum Listvinafélagsins í Eldborg í lok desember 2024 þ.s. flytjendur heiðruðu Hörð Áskelsson fyrir ævistarf sitt flutti Alþjóðlega barokksveitin Jólaóratóríuna með Mótettukórnum og Schola cantorum og söng Benedikt Kristjánsson tenórhlutverkið og stjórnaði flutningnum.
Hljómsveitin hefur undantekningarlaust fengið frábæra dóma fyrir leik sinn og hefur átt ómetanlegan þátt í að kynna flutningsmáta upprunastefnu og hljóðfæri barokktímans hér á landi. Um þriðjungur hljómsveitarinnar eru nú íslenskir hljóðfæraleikarar sem hafa sérhæft sig í flutningi barokktónlistar.
Konsertmeistari Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík er finnski fiðluleikarinn Tuomo Suni.
Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík á lokatónleikum Listvinafélagsins 29. 12. 2024
1. fiðla
Tuomo Suni konsertmeistari
Joanna Huszcza
Stephen Freeman
Felicia Graf
Guðbjartur Hákonarson
2. fiðla
Marika Holmqvist
Antina Hugosson
Laufey Jensdóttir
Gunnhildur Daðadóttir
Víóla
Guðrún Hrund Harðardóttir
Claire Fahy
Svava Bernharðsdóttir
Selló
Emily Robinson
Julien Hainsworth
Bassi
Christian Staude
Flauta
Georgia Browne
Magnea Árnadóttir
Óbó
Jasu Moisio
Diego Nadra
Gilberto Caserio
Lidewei De Sterck
Fagott
Lisa Goldberg
Trompet
Geerten Rooze
David Kjar
Ólafur Elliði Halldórsson
Pákur
Frank Aarnink
Orgel
Haru Kitamika
Semball
Halldór Bjarki Arnarson

