Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Óratórían Guðspjall Maríu /The Gospel of Mary eftir Huga Guðmundsson tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna
Óratórían Guðspjall Maríu /The Gospel of Mary eftir Huga Guðmundsson tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna
22/10/2024
Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024
Hörður Áskelsson hlýtur heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024
29/10/2024

Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024

Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024. Diskurinn kom út á vegum hins þekkta sænska útgáfufyrirtækis BIS í apríl 2023 og fór í alþjóðlega dreifingu. Á diskinum flytur Schola Cantorum fimmtán nýleg íslensk og erlend kórverk undir stjórn Harðar Áskelssonar, en flest verkin fjalla um sorg og söknuð á nærgætinn hátt og ljóma af birtu vonar og huggunar. Fyrri diskur kórsins með þessu nafni kom út hjá BIS árið 2016 og hlaut mikið lof í erlendum fjölmiðlum.

Meðal höfunda verka á nýja diskinum eru Eric Whitacre, Daniel Elder, Ola Gjeilo, Galina Grigorjeva og Paul Mealor. Sjö íslensk tónskáld eiga tónverk á diskinum þar á meðal Haukur Tómasson og Þóra Marteinsdóttir og eru fimm þeirra núverandi eða fyrrverandi félagar í Schola Cantorum, þau Auður Guðjohnsen, Björn Thoroddsen, Hafsteinn Þórólfsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Sigurður Sævarsson.

Diskurinn fékk frábæra dóma í íslenskum og erlendum miðlum. Í fimm stjörnu dómi í Morgunblaðinu skrifaði Magnús Lyngdal Magnússon meðal annars:

„Flutningurinn er fyrsta flokks og hljóðið (eins og nánast alltaf hjá BIS) sallafínt. Schola Cantorum hefur fyrir löngu skipað sér á stall sem einn besti kammerkór landsins (og þótt víðar væri leitað) og músíkalskur flutningur kórsins undir stjórn Harðar Áskelssonar á nýja geisladiskinum er eftirminnilegur.“

Á vefsíðunni MusicWeb International skrifar gagnrýnandinn Gwyn Parry-Jones:

„Yfirbragð geisladisksins er friðsælt og íhugandi, í takt við titilinn, en þeir sem hlusta vandlega uppgötva mikla fjölbreytni og djúpar tilfinningar. Inntónun og tónræn nákvæmni þessa kórs er fyrsta flokks og er ein meginástæða þess hve hljóðritunin lætur ljúflega í eyrum – auk þess sem jafnvægið á milli radda kórsins er framúrskarandi. Ef marka má þennan geisladisk er Schola Cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar einn af fremstu kammerkórum heims um þessar mundir.“

Tónlistin á Meditatio II var tekin upp í Skálholtsdómkirkju í september 2021. Með upptökustjórn fór þýski tónmeistarinn Jens Ulrich Braun sem áður hefur unnið með Schola Cantorum og Herði Áskelssyni með frábærum árangri.

Geisladiskurinn Meditatio II með kammerkórnum Schola Cantorum tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024