Hallgrímskirkja 27. október 2017 klukkan 20.00
Hallgrímsdagurinn, 343. ártíð Hallgríms Péturssonar
„Sálmar á nýrri öld“
Kammerkórinn Schola cantorum
Stjórnandi: Hörður Áskelsson
Listvinafélag Hallgrímskirkju og Hallgrímssöfnuður standa fyrir Lúthersdögum í Hallgrímskirkju 26. – 31. október nk. í tilefni af 500 ára afmæli siðbótarinnar sem nú er minnst um allan heim. Til að kallast á við Lúther og sálmana, sem Lúther vildi að fluttir væru á móðurmálinu býður kammerkórinn Schola cantorum til tónleika í Hallgrímskirkju föstudagskvöldið 27. október klukkan 20.00 undir yfirskriftinni “Sálmar á nýrri öld”, en þar flytur kórinn eingöngu sálma eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Sigurð Flosason. Sálmalögin, sem eru sett út fyrir fjögurra radda kór, eru sungin án undirleiks.
Þessir hugljúfu og hrífandi sálmar Aðalsteins og Sigurðar hafa þegar margir öðlast vinsældir en Skálholtsútgáfan gaf sálmana út í kórbókaröðinni Söngvasveigur árið 2010. Í formála bókarinnar stendur: “Efnistök Sálma á nýrri öld eru víðfeðm, lofgjörð, bæn, gleði, sorg, kirkjuathafnir, kirkjuár, morgunn og kvöld, sumir eiga sér óræðan stað í tíma og rúmi og falla varla undir hefðbundnar skilgreiningar á sálmi.” Þess má geta að Schola cantorum syngur sálmana inn á geislaplötu í næsta mánuði.
Schola cantorum er í fremstu röð kóra á Íslandi og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir söng sinn, m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins 2016 og geislaplata kórsins Meditation hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda víða um heim.
Miðaverð er 2.500 kr og er miðasala við innganginn og á midi.is
Sjá listvinafelag.is, hallgrimskirkja.is, scholacantorum.is
Efnisskrá:
1. Bæn
2. Bænhús
3. Hvar ertu Guð?
4. Lifandi Guð
5. Í orði Guðs
6. Í friðarins nafni
7. Ég er
8. Á páskum
9. Vitneskja
10. Tveir englar
11. Heilög stund
12. Kom engill
13. Tignarlegir tindar
14. Nýr hljómur
15. Hinsta kveðja
16. Upp í móti
17. Allir góðir englar
18. Kvöldljóð
19. Ljósfaðir