Hárkollur, Händel og himneskt barokk: Kirkjulistahátíð 2015 opnar á morgun

Andreas Liebig
Andreas Liebig á lokahelgi Alþjóðlegs orgelsumars
06/08/2015
Tónlist fyrir hina eilífu hvíld á Allra heilagra messu
01/10/2015

Hárkollur, Händel og himneskt barokk: Kirkjulistahátíð 2015 opnar á morgun

Kirkjulistahátíð 2015 opnar á morgun, föstudaginn 14. ágúst kl. 17 með pompi og prakt í Hallgrímskirkju.

Mótettukórinn og Aljóðlega barokksveitin í Den Haag flytja brot úr óratóríunni Salómon eftir Händel, en það mikilfenglega verk verðu frumflutt á Íslandi nú um helgina á hátíðinni. Einnig stíga fótafimir barokkdansarar í fullum skrúða barokkdansinn hornpipe við undirleik barokksveitarinnar. Síðast en ekki síst verður opnuð glæsileg sýning á málverkum Helga Þorgils Friðjónssonar í anddyri, skipi og kór kirkjunnar. Við hlökkum til að sjá sem flesta listvini við athöfnina!

Eftir þetta reka hverjir eðaltónleikarnir aðra. Eins og áður sagði verður Salómon fluttur um helgina, laugardag kl. 19 og sunnudag kl. 16 undir styrkri stjórn Harðar Áskelssonar. Enginn ætti að missa af hinum heimsfræga, raddþýða kontratenór Robin Blaze í hlutverki Salómons konungs!

Á mánudeginum verða spennandi raftónleikar í kirkjunni þar sem hinn nýi midi-búnaður Klaisorgelsins verður nýttur, en sá búnaður opnar áður óþekkta möguleika í notkun orgelsins risavaxna.

Á þriðjudag komandi verða barokktónleikar sem enginn aðdáandi Händels og vandaðs flutnings ætti að láta framhjá sér fara, en þá flytja Nordic Affect ásamt barokkfiðluleikaranum Tuomo Suni, blokkflautuleikaranum Ian Wilson og hópi einsöngvara úr Salómoni heimilistónlist eftir Händel.

Í hádeginu á miðvikudag verður Schola cantorum með tónleika og syngur m.a. hið þekkta Miserere eftir Allegri.

Á fimmtudeginum leikur hinn heimsþekkti organisti Notre Dame í París, Olivier Latry, einleikstónleika en einnig spilar hann fjórhent (og fjórfætt!)Vorblót Stravinskys ásamt konu sinni Shin-Young Lee.

Fleiri heimsfrægir tónlistarmenn láta ljós sitt skína á föstudeginum, en hinn þekkti kór frá King´s College í Cambridge á fulltrúa á hátíðinni í ár: Sönghópinn King´s Men. Syngja þessir eðalsöngmenn bæði enskan Evensong og tónleika með verkum eftir m.a. Tallis, Byrd og Bach.

Aðra helgi verður Menningarnótt í Reykjavík og að vanda verður vegleg dagskrá í Hallgrímskirkju milli 15 og 21. Á Sálmafossinum 2015 ber það helst til tíðinda að frumfluttir verða 5 íslenskir sálmar eftir 10 konur, skáld og tónskáld en einnig verður leikin kvikmyndatónlist á Klaisorgelið, sem sannarlega fær að sýna á sér nýjar hliðar á hátíðinni í ár.

Lokatónleikar Kirkjulistahátíðar verða annan sunnudag og er það kammerkórinn Schola cantorum sem heldur þá. Verða frumflutt þrjú íslensk kórverk, þeirra stærst Missa semplice eftir John A. speight fyrir kór og hörpu. Elísabet Waage leikur með kórnum.

Nánari upplýsingar um dagskrána, listamennina og miðasöluna má finna á:

www.kirkjulistahatid.is